Translate to

Fréttir

Ríkið flytur kostnað á milli vasa

Flateyri við Önundarfjörð. Mynd: Mats Wibe Lund Flateyri við Önundarfjörð. Mynd: Mats Wibe Lund

Ákveðið hefur verið að segja upp öllu starfsfólki á hjúkrunardeildinni Sólborg á Flateyri og leggja störf þess niður.  Með þessum hætti á að vera hægt að ná fram auknum sparnaði í rekstri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, en rekstrareiningin á Sólborg þykir mjög óhentug og barn síns tíma. Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni verður ekki hægt að bjóða starfsfólkinu sem missir vinnuna önnur störf hjá stofnuninni, en ef um nýráðningar verði að ræða hjá stofnuninni þá verði vissulega  horft til þessara einstaklinga. Þarna munu því sjö einstaklingar missa vinnuna og bætast í stækkandi hóp atvinnuleitenda á Vestfjörðum.
 

Ekki er um hálauna störf að ræða og því ekki í fljótu bragði hægt að sjá að með aðgerðinni náist umtalsverður sparnaður fyrir ríkið. En rekstur fasteigna verði áfram í forsjá ríkisins og ríkið mun áfram greiða þessum einstaklingum laun þó með öðru sniði.  Í stað þess að einstaklingarnir sem missa vinnuna fái laun frá ríkisstofnun sem heitir Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, þá munu þeir fá laun frá ríkisstofnun sem heitir Vinnumálastofnun, en þá  í formi atvinnuleysisbóta. Eina breytingin verður því tilfærsla fjármuna á milli vasa hjá ríkinu.
 

Þegar á heildina er litið er ekki auðvelt að koma auga á hinn raunverulega sparnað, enda fjármunirnir teknir úr sitt hvorum vasanum á sömu flíkinni. Sannast það best í þessu tilfelli sem alltof oft er reyndin að þegar á að hagræða í rekstri þá nær sparnaðurinn sjaldnast upp fyrir gólflistana. Þessi ráðstöfun mun aftur á móti skapa óöryggi bæði hjá þeim sem missa vinnuna sem og íbúum og aðstandendum þeirra vistmanna sem verða fluttir í burtu.

Deila