Ríkissamningar - viðræðum enn slegið á frest.
Viðræður vegna kjarasamninga Starfsgreinasambands Íslands ( SGS ) vegna ófaglærðra hjá ríkisstofnunum eru í biðstöðu. En samningarnir hafa verið lausir frá 31. mars síðast liðinn. Ekki má kvika frá þeirri kröfu að ófaglærðum hjá ríkisstofunum verði tryggðar umtalsverðar kjarabætur frá því sem nú er. En ekki er hægt að skynja að okkar fólk, sem vissulega ber uppi verkin á stofnunum sem og öðrum vinnustöðum, skipti miklu máli í þeim viðræðum sem nú eru í gangi. Samninganefnd SGS hefur ítrekað reynt að ná fundum með ráðamönnum en ekkert gengið, jaðrar tómlæti ráðamanna í þessum efnum við dónaskap og óvirðingu gagnvart okkar fólki. Ekki er að sjá miðað við þróun mála að neitt nýtt verði upp á borðinu varðandi ríkissamningana fyrr en síðar í mánuðinum.