Samdráttur á vinnumarkaði – viðbrögð fyrirtækja og stuðningskerfi vinnumarkaðarins
Fyrir liggur að mikil óvissa ríkir nú í atvinnulífinu um stöðuna og þróunina næstu vikur og mánuði.Búast má við að verulegur samdráttur verði á vinnumarkaði a.m.k. tímabundið og er hans þegar farið að gæta í ýmsum atvinnugreinum, bæði með uppsögnum og samdrætti í vinnutíma.
Í ljósi stöðunnar hafa vaknað upp spurningar um það hvernig best sé að bregðast við þessum aðstæðum og hafa m.a. komið fram þau sjónarmið að mikilvægt sé að fyrirtæki sem sjá fram á tímabundinn samdrátt í starfsemi sinni leiti allra leiða til að komast hjá uppsögnum starfsmanna, m.a. með því að bjóða starfsmönnum frekar upp á skertan vinnutíma þar til starfsemin kemst aftur í eðlilegt horf.
Mikilvægt er að tryggja eins og kostur er að fólk haldi vinnunni við núverandi aðstæður og að fyrirtæki þurfi ekki að segja upp starfsfólki. Jafnframt er ljóst að þær tímabundnu aðgerðir sem fyrirtæki grípa til séu í samræmi viðkjarasamninga og lög. Og jafnframt að þær verði ekki til að skerða réttindi starfsmanna gagnvart atvinnuleysistryggingasjóði, ábyrgðasjóði launa eða önnur félagsleg réttindi.
Í ljósi framanritaðs munu forystumenn ASÍ eiga viðræður við Samtök atvinnulífsins um sameiginlega nálgun og leiðbeiningu til fyrirtækja og starfsmanna um það hvernig best sé að bregðast við tímabundnum erfiðleikum.
Jafnframt er nú unnið að því af hálfu félags- og tryggingaráðuneytisins í samráði við fulltrúa ASÍ og SA hvað sé hægt að gera og hvað þurfi til að tryggja eins og kostur er að reglur varðandi atvinnuleysisbætur og ábyrgð á launum við gjaldþrot og framkvæmd þeirra vinni með þeim tímabundnum aðgerðum sem fyrirtæki kunna að þurfa að grípa til, og að réttindi launafólks skerðist ekki vegna þeirra.
Meðan verið er að vinna í þessum málum er mikilvægt að ekki verði gripið til aðgerða af hálfu fyrirtækjanna og starfsmanna þeirra sem geta unnið gegn framangreindum markmiðum. Það er rétt aðóska eftir því við fyrirtæki sem telja sig þurfa að grípa til samdráttaraðgerða að þau fresti ákvörðunum þar til fyrir liggur hvað kemur út úr þeirri vinnu sem nú er í gangi. Hvað verður ætti að liggja ljóst fyrir á næstu dögum og í síðasta lagi fyrir vikulok.
Tekið af vef ASÍ 20. okt.