Translate to

Fréttir

Samkomulag um vinnustaðaskírteini taka gildi

Dæmi um hefðbundið vinnustaðaskírteini Dæmi um hefðbundið vinnustaðaskírteini
Þann 15. ágúst sl. tók gildi samkomulag ASÍ og SA um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum. Öllum atvinnurekendum í hlutaðeigandi greinum ber að sjá til þess að starfsmenn fái vinnustaðaskírteini þegar þeir hefja störf. Nánar um gildissvið og afmörkun starfa má finna í samkomulaginu sjálfu. Síðar er gert ráð fyrir að aðrar atvinnugreinar fylgi í kjölfarið. Atvinnurekandi og starfsmenn hans skulu bera skírteini á sér og vera reiðubúnir að framvísa því, sé þess óskað af eftirlitsfulltrúa. Með atvinnurekanda er einnig átt við sjálfstætt starfandi einstaklinga. Markmið vinnustaðaskírteina og eftirlits á vinnustöðum er að tryggja að atvinnurekendur og starfsmenn þeirra fari að gildandi lögum, reglugerðum og kjarasamningum. og þannig verði komið í veg fyrir ólöglega háttsemi fyrirtækja á íslenskum vinnumarkaði. 

Á vinnustaðaskírteini skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram:

Nafn og kennitala viðkomandi starfsmanns ásamt mynd. Starfsheiti er valkvætt. Ef starfsmaður erlends þjónustufyrirtækis er ekki með íslenska kennitölu skal skrá fæðingardag og ár.

Nafn/heiti atvinnurekanda eins og það er skráð í fyrirtækjaskrá (eða heiti starfsmannaleigu eins og það er skráð hjá Vinnumálastofnun).

Atvinnurekandi er ábyrgur fyrir gerð vinnustaðaskírteinisins og þeim upplýsingum sem þar koma fram. Hann er ekki bundinn við tiltekið form eða útlit svo lengi sem skírteinið uppfyllir skilyrðin hér að framan. Þau fyrirtæki sem þegar hafa gefið út vinnustaðaskírteini fyrir sig og starfsmenn sína, sem uppfylla skilyrðin hér að framan þurfa ekki að gera sérstakar ráðstafanir.

Beri atvinnurekandi eða starfsmenn hans ekki vinnustaðaskírteini á sér við störf sín á vegum atvinnurekanda á viðkomandi vinnustað atvinnurekanda skv. 2. mgr. 3. gr. geta eftirlitsfulltrúarnir tilkynnt um það til Vinnumálastofnunar. Vinnumálastofnun getur krafist þess að atvinnurekandi bæti úr annmörkunum innan hæfilegs frests að viðlögðum dagsektum. Sé um ítrekað brot atvinnurekanda að ræða getur Vinnumálastofnun krafist þess að atvinnurekandi bæti úr annmörkum innan sólarhrings. Ákvörðun um dagsektir skv. 1. mgr. skal tilkynnt skriflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að.

 

Dagsektir geta numið allt að 100.000 krónum hvern dag. Við ákvörðun fjárhæðar dagsekta skal meðal annars líta til fjölda starfsmanna atvinnurekanda og hversu umsvifamikill viðkomandi atvinnurekstur er. Dagsektir skulu renna í ríkissjóð. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á Skrifstofu félagsins eða á heimasíðunni www.skirteini.is.  

Deila