Samkomulag um vinnustaðaskírteini taka gildi
Á vinnustaðaskírteini skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram:
Nafn og kennitala viðkomandi starfsmanns ásamt mynd. Starfsheiti er valkvætt. Ef starfsmaður erlends þjónustufyrirtækis er ekki með íslenska kennitölu skal skrá fæðingardag og ár.
Nafn/heiti atvinnurekanda eins og það er skráð í fyrirtækjaskrá (eða heiti starfsmannaleigu eins og það er skráð hjá Vinnumálastofnun).
Atvinnurekandi er ábyrgur fyrir gerð vinnustaðaskírteinisins og þeim upplýsingum sem þar koma fram. Hann er ekki bundinn við tiltekið form eða útlit svo lengi sem skírteinið uppfyllir skilyrðin hér að framan. Þau fyrirtæki sem þegar hafa gefið út vinnustaðaskírteini fyrir sig og starfsmenn sína, sem uppfylla skilyrðin hér að framan þurfa ekki að gera sérstakar ráðstafanir.
Beri atvinnurekandi eða starfsmenn hans ekki vinnustaðaskírteini á sér við störf sín á vegum atvinnurekanda á viðkomandi vinnustað atvinnurekanda skv. 2. mgr. 3. gr. geta eftirlitsfulltrúarnir tilkynnt um það til Vinnumálastofnunar. Vinnumálastofnun getur krafist þess að atvinnurekandi bæti úr annmörkunum innan hæfilegs frests að viðlögðum dagsektum. Sé um ítrekað brot atvinnurekanda að ræða getur Vinnumálastofnun krafist þess að atvinnurekandi bæti úr annmörkum innan sólarhrings. Ákvörðun um dagsektir skv. 1. mgr. skal tilkynnt skriflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að.
Dagsektir geta numið allt að 100.000 krónum hvern dag. Við ákvörðun fjárhæðar dagsekta skal meðal annars líta til fjölda starfsmanna atvinnurekanda og hversu umsvifamikill viðkomandi atvinnurekstur er. Dagsektir skulu renna í ríkissjóð. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á Skrifstofu félagsins eða á heimasíðunni www.skirteini.is.