Satrfsfólki Lotnu sagt upp - höggva verður á hnútinn og eyða óvissu
Á fundi starfsfólks og forsvarsmanna fiskvinnslu Lotnu á Flateyri í morgun kom fram að fyrirtækið yrði að gripa til þeirra neyðarúrræða að segja nánast öllu starfsfóki fyrirtækisins upp eða 11 af 13 starfsmönnum. Á fundinum var starfsfólki afhent uppsagnarbréf þar sem ástæður uppsagna voru raktar. Fulltrúar Verk Vest fóru yfir stöðuna með starfsfólki og hvernig best væri að haga málum ef uppsagnir tækju gildi þann 31. júlí. Ástæðu uppsagna segja forsvarsmönnum Lotnu vera viðvarandi óvissu um áframhaldandi rekstur fyrirtækisins á Flateyri. Segjast forsvarsmenn fyrirtækisins ekki geta lofað neinu um áframhaldandi rekstur, en ætlunin sé að reyna halda út eins mikilli vinnslu og mögulegt er til 31. júli. Sú óvissa sem meirihluti íbúa á Flateyri hefur þurft að búa við vegna þess hvernig haldið hefur verið á málefnum þrotabús Eyrarodda er með öllu ólíðandi. Grípa þarf til tafalausra aðgerða þannig að hægt verði að eyða óvissu og koma tryggri vinnslu af stað á Flateyri að nýju. Höggva verður á hnút óvissunnar sem hefur nagað Flateyringa alltof lengi. Ef slíkt verður ekki gert eins fljótt og hægt er má búast við að ástandi í atvinnu og byggðamálum á Flateyri nálgist neyðarástand.