Translate to

Fréttir

Sjómannadagurinn í kjölfar Covid

Togarar við bryggju á Ísafirði (júní 2022) Togarar við bryggju á Ísafirði (júní 2022)

Eins og með svo margt annað hefur Sjómannadagurinn breyst í tímans rás. Sjómenn voru mjög mikilvægir landinu í heild sinni, enda fæðuöflun mjög mikilvæg þessari litlu eyþjóð úti í miðju Atlantshafi, og þar af leiðir naut sjómennska mikillar virðingar áður fyrr. Sjómannadagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur 1938 á Ísafirði og í Reykjavík, en svo um allt land í kjölfarið. Dagurinn var stór hátíð í hugum landans, enda helgaður hetjum hafsins.

Hetjur hafsins, sómi þjóðarinnar

Sjómennskan bar lífskjör Íslendinga á örmum sér um langa hríð, starfið var erfitt og hættulegt og nutu sjómenn virðingar þjóðarinnar fyrir að taka að sér þetta göfuga verkefni. Að duga eða drepast átti sannarlega við um sjómenn og til starfsins völdust menn sem risu undir álaginu. Þegar þeir voru í landi voru þeir hrókar alls fagnaðar og einkenndi þessi kraftur og þessi gleði Sjómannadaginn og gerði hann að stórhátíð sjávarplássanna. Engu skipti hvort um útgerðarmann, landverkamann eða sjómann var um að ræða, allir lögðust á eitt til að halda daginn hátíðlegan.

Breyttur tíðarandi

Með bættum hag þjóðar hafa risið aðrar atvinnugreinar sem leggja sitt af mörkum til gjaldeyrisöflunar fyrir þjóðina. Menn fóru að keppast við að sölsa undir sig fjármagn af ofur-græðgi og engu skipti þótt þjóðin væri keyrð í efnahagshrun, sá sem nær mestu "vinnur" og sá sem á peningana ræður. Sjálfboðastörf og félagsleg hugsun hefur orðið undir.

Sjómannadagur nútímans

Margar hendur vinna létt verk hefur lengi verið viðkvæðið, en nú virðist sem margar hendur vinni launuð verk. Sjómannadagurinn hefur alla tíð verið samvinnuverkefni, allir hjálpuðust að við að gera daginn að sem mestri skemmtun, allir tóku þátt. Í seinni tíð er staðan orðin sú að sjómönnum hefur fækkað verulega og skipin koma í land fyrir Sjómannadag samkvæmt fyrirfram ákveðnu plani, þrifin hátt og lágt og áhöfnin dauð-þreytt. Öll orka áhafnarinnar fer í að sinna fjölskyldunni, einhver annar þarf að græja hátíðarhöldin, einhver annar sem fær greitt fyrir fullu verði. Þeir sem áður fyrr sameinuðu krafta sína til að gera daginn hátíðlegan eru nú orðnir neytendur sem hafa jafnvel ekki mikinn áhuga á hátíðarhöldunum, enda ekki lengur kúl að vera sjómaður.

Í smærri sjávarþorpum þar sem mikil smábátaútgerð er við lýði á þetta hins vegar ekki við. Þar virðist gamla hugsunin enn vera í fullu gildi, þar er enn kúl að vera sjómaður.

Á Vestfjörðum hefur tíðkast í hálfa öld að útgerðarmenn, burðarstólpar samfélagsins, hafa boðið bæjarbúum í skemmtisiglingu á Sjómannadag (að undanskildum Covid-árunum tveimur), en sjómenn hafa alla tíð gefið vinnu sína við að gera skipin tilbúin til að taka móti farþegum og vinnu sína við siglinguna. Nú á því herrans ári 2022 hafa hins vegar orðið þau tímamót að ekki var boðið til siglingar á Ísafirði. Ísfirðingar og ísfirskar útgerðir voru í fararbroddi þegar þessari hátíð til heiðurs sjómönnum var komið á. Vonandi verða Ísfirðingar og ísfirskar útgerðir ekki í fararbroddi við að jarðsyngja þessa hátíð á landsvísu.

Deila