Sjómannafélag Ísfirðinga 100 ára í dag
Sjómannafélag Ísfirðinga er 100 ára í dag en félagið var stofnað 5. febrúar 1916. Fyrsti formaður þess var Eiríkur Einarsson, en aðrir í stjórn voru Sigurgeir Sigurðsson, Jón Björn Elíasson og Jónas Sveinsson. Á stofnfundinum voru skráðir í félagið 75 meðlimir, samkvæmt fundargerðabók, en fram að næsta fundi bættust við 34, þannig að stofnfélagar teljast 109. Félagar hafa lengst af verið hátt á annað hundrað, en mest um þjú hundruð á árum eftir síðari heimsstyrjöld.
Í fyrstu hét félagið Hásetafélag Ísfirðinga, en nafninu var breytt á fundi 23. október 1921, til samræmis við sjómannafélögin í Reykjavík og Hafnarfirði. Félagið sótti um inngöngu í Alþýðusamband Íslands árið 1921, en virðist ekki hafa verið samþykkt fyrr en 18. febrúar 1924. Sjómannafélagið var meðal stofnenda Alþýðusambands Vestfjarða (Verklýðssambands Vesturlands) árið 1927 og félagið gekk í Sjómannasamband Íslands eftir 1970.
Sjómannafélag Ísfirðinga hefur frá stofnun þess 1916 unnið að bættum hag sjómannastéttarinnar á ýmsum sviðum, bæði með samningagerð, en einnig afskiptum af öryggismálum og öðrum þeim málum sem snúa að bættum hag og lífskjörum félagsmanna. Má þar nefna sjómannafræðslu, sundlaugarbyggingu og lífeyrismál.
Félagar í Sjómannafélag Ísfirðinga samþykktu í allsherjaratkvæðagreiðslu sem lauk 15. janúar 2005 að sameinast Verkalýðsfélagi Vestfirðinga og er félagið deild innan Verk Vest.
Núverandi formaður Sjómannafélags Ísfirðinga er Sævar Gestsson.
Þess má geta að Vlf. Baldur verður 100 ára 1. apríl og hafa félögin ákveðið að sameinast um hátíðahöld í tilefni afmælanna í byrjun apríl. Hátíðarhöldin verða auglýst síðar.
Nánar er sagt frá sögu Sjómannafélagsins hér