Sjómannasamband Íslands afhenti SFS kröfur sjómanna í dag
Sjómannasamband Íslands fundaði með SFS og afhenti þeim kröfur sjómanna í dag, en samningar hafa verið lausir síðan 1. desember síðastliðinn. Kröfur sjómanna eru í 15 liðum og eru eftirfarandi:
- Kauptrygging og aðrir kaupliðir hækki.
- Fiskverð verði endurskoðað. Ákvörðun á verði upsjávarafla sett í eðlilegt horf.
- Útgerðin greiði 3,5% mótframlag í lífeyrissjóð.
- Útgerðin greiði 0,3% í Sjómennt.
- Útflutningur í gámum. Vinna skipverja við ísun ekki leyfileg þegar aflinn hefur þegar veið seldur erlendum aðila.
- Slysavarnarskóli sjómanna. Nánar verði skilgreint hvaða kostnað útgerð á að bera varðandi uppihald og ferðir.
- Ráðningarsamningar og lausráðningar. Þessum málum komið í betra horf.
- Frí um Jól, áramót og sjómannadag verði aukin.
- Trúnaðarmaður skipverja við uppgjör geti verið utanaðkomandi aðili að vali skipverja og stéttarfélags.
- Vinna matsveina á uppsjávarskipum verði römmuð inn með tilliti til hvíldartíma og í höfn utan heimahafnar.
- Laun aðstoðarmanns matsveins á frystiskipum hækki verulega.
- Ávinnsla orlofs verði samræmd við almenna markaðinn.
- Vinnslustjórar og matsmenn á frystiskipum fái 1/8 aukahlut í stað fastrar krónutölu.
- Bætur frá útgerð vegna afnáms sjómannaafsláttar.
- Skipverjar hafi frí við löndun á öllum veiðum, þar með talið á dagróðrum.
Þar að auki áskilur samninganefnd Sjómannasambands Íslands sér rétt til að bæta við eða breyta kröfum í komandi samningaviðræðum.
Samninganefnd útgerðarmanna svaraði kröfum okkar með því að leggja fram kröfur á hendur sjómönnum í fleiri liðum en sjómenn lögðu fram, en kröfur útgerðarmanna eru eftirfarandi:
- Sjómenn greiði hlut í sköttum útgerða, s.s. veiðigjaldi, tryggingagjaldi og kolefnisgjaldi.
- Sjómenn greiði þriðjung kostnaðar útgerðar við að slysatryggja sjómenn.
- Sjómenn í skiptimannakerfum gefi eftir veikindarétt sinn þannig að þeir fái aðeins greitt fyrir þá túra sem þeir hefðu verið um borð samkvæmt plani.
- Nýsmíðaákvæði breytist þannig að togararall Hafró verði undanskilið í útreikningi úthaldsdaga. Samið verði um nýsmíðaálag varðandi næstu kynslóð fiskiskipa.
- Helgar- og hafnarfrí falli út en skipverjum verði tryggðir frídagar eftir nánara samkomulagi við útgerð. Sérákvæði um frí um Páska falli niður og Jólafrí á uppsjávarskipum verði stytt.
- Kauptryggingartímabil verði lengt í þrjá mánuði.
- Uppgjöri á frystitogurum verði breytt þannig að 90% uppgjör af aflaverðmæti til sjómanna falli út og lengri tími verði veittur til fullnaðaruppgjörs.
- Heimilt verði að ráða sjómenn til útgerðar í stað þess að ráða á tilgreind skip.
- Endurskoðaðar verði greiðslur útgerðar í styrktar- og sjúkrasjóði.
- Skiptakjör og uppgjörsaðferðir verði endurskoðaðar varðandi einstakar veiðigreinar.
- Heimilt verði að ráða áhafnarmeðlimi á öðrum kjörum en aflahlut.
- Heimilt verði að ráða fleiri en einn skipverja í eina stöðu, þ.e. tvo eða fleiri um eitt hásetapláss.
- Sektir fyrir brot á kjarasamningum verði felldar niður.
- Sömu kjarasamningar gildi á öllu landinu. (Verk Vest og ASA renni inn í SSÍ).
- Kostnaður við geymslu afurða verði dreginn af óskiptu gegn hlut áhafnar í hærra söluverði.
- Fiskur sem meðafli á rækjuveiðum verði gerður upp samkvæmt ákvæðum um fiskveiðar.
- Ákvæði kjarasamninga um löndun verði tekin til endurskoðunar.
- Kvótakaup frá erlendum aðilum verði dregin frá óskiptu.
- Enginn matsveinn verði á minni bátum og ákvæði um aðstoðarmann matsveins falli brott.
Þar að auki áskilur samninganefnd SFS sér rétt til að bæta við eða breyta kröfum í komandi samningaviðræðum.
Næsti fundur verður væntanlega innan skamms.