Translate to

Fréttir

Sjómenn borga útgerðarmönnum rekstrarstyrk – breytinga er þörf !

Þegar ég byrjaði fyrst á sjó hafði ég aldrei áður heyrt á það minnst að starfsmenn fyrirtækja tækju á sig hluta af rekstrarkostnaði við vinnustað sinn og fannst það ansi undarlegt. í skilningsleysi mínu fyrir þessu krafði ég eldri sjómenn svara við því hvers vegna þetta væri. Mér var bent á að olíuverðsviðmið hefði verið sett í lög (lög nr. 24/1986) vegna slæmrar stöðu útgerðar á þeim tíma, og að olíukostnaður hafi verið metinn stærsti orsakavaldur af því. Þess vegna leggi sjómenn til hluta launa sinna í þeim tilgangi að styrkja rekstur útgerða og tryggja eigið atvinnuöryggi. Með þeim hætti er sjómönnum gert að taka á sig sveiflur á olíuverði og koma þannig útgerðarmönnum til hjálpar. Gegn þessum rekstrarstyrk sjómanna til útgerðar þegar illa árar, áttu útgerðarmenn að skila hærri skiptaprósentu til þegar vel árar, og átti olíuverðið að notast sem mælikvarði.  Þetta kerfi undirstrikar að sjómenn og útgerðarmenn eigi að vera samherjar og séu að vinna sameiginlega að sama markmiði.

Olíuverð á heimsmarkaði hefur þróast með tíð og tíma, og þessa þróun er ekki hægt að kalla sveiflu, enda eru sveiflur til skamms tíma en þróun til langs tíma. Olíuverð á heimamarkaði er til dæmis í lágmarki í dag. Það má bersýnilega sjá á fréttaflutningi þegar olíuríki minnka framleiðslu til að hækka verð. Þetta segir okkur að þau viðmið sem er verið að notast við í dag til að ákvarða skiptaprósentu eru bersýnilega úr sér gengin, enda er skiptaprósenta búin að halla á sjómenn nokkuð sleitulaust í fjölda ára þrátt fyrir lækkandi olíuverð. Við þurfum bersýnilega nýja aðferð til að meta hvað er þróun olíuverðs og hvað eru sveiflur. Sveiflurnar eiga að hreyfa skiptaprósentu, ekki þróun. Þróun á að vera grunnur til viðmiðunar.

Útgerðarmenn eru mjög hæfir í að reka fyrirtæki og eru  að skila afburða góðri afkomu þessi árin. Þessum árangri hafa þeir náð með rekstrarstyrk frá sjómönnum sem hafa styrkt útgerðarmenn með því að gefa eftir hluta launa sinna útgerðarmönnum til handa í langan tíma. Þróun olíuverðs og rekstrarstyrkur sjómanna hefur gjörbreytt rekstrarumhverfi útgerðarmanna sem skilar sér í gríðarlegum arði hjá útgerðarmönnum.  Þróunin er einnig sú að ný skip verða eyðslugrennri með nýrri hönnun, og er nýsmíði fiskiskipa einnig rekstrarstyrkur frá sjómönnum til útgerðar. Sjálfsagt vita ekki margir að hluti launa sjómanna er nýttur til að greiða fyrir smíði á nýjum skipum án þess að sjómenn eignist hlut í nýsmíðuðum skipum útgerðarmanna. Við sjómenn treystum útgerðarmönnum fullkomnlega til að halda áfram að skila góðri afkomu án þess að vera áskrifendur að launum okkar sjómanna. Í ljósi góðrar afkomu útgerðar þessi árin er rétti tíminn til að endurmeta útreikning á olíuverðsviðmiði og þannig skipta hlutnum með réttlátari hætti til sjómanna.

Til að leysa þetta mál á réttlátan máta fyrir báða aðila þarf að ákvarða langtíma meðalverð á olíu, og sanngjörn leið til þess er að meðalverð síðustu 24 mánaða verði metið sem grunnur til útreiknings (75% skiptaverð). Síðan þarf reikna sveiflur frá því til breytinga á skiptaverði líkt og þær töflur sem eru í gildi í dag. Til þess að hnika skiptaverði upp/niður um 1% þurfi olíuverð að vera $20 hærra/lægra. Taflan verði uppfærð samkvæmt þessum forsendum einu sinni í mánuði. Að öðrum kosti væri aðeins fær sú leið að leggja olíuverðsviðmið niður og festa skiptaprósentuna í 80%.

Bergvin Eyþórsson er sjómaður og trúnaðarmaður á Stefni IS 28 og í samningaráði sjómanna hjá Verk Vest. 

Deila