Sjómenn móta kröfur vegna endurnýjunar kjarasamnings
Sjómannfélag Ísafjarðar, sem er deild í Verkalýðsfélagi Vestfirðinga, boðaði til fundar vegna sjómannasamninga sem gilda til 31. maí næst komandi. Fyrr í vetur hafði verið sent út bréf til sjómanna í Verk Vest. Þar var óskað eftir tillögum í kröfugerð vegna endurnýjunar kjarasamnings sjómanna. Farið var yfir þær tillögur sem bárust ásamt því sem nýjum var bætt við. Þá var hnykkt á ýmsum eldri kröfum sem nauðsynlegt þykir að hamrað verði á í komandi samningsgerð. Í fundarlok voru komnar nokkuð velmótaðar kröfur á blað sem verða kyntar viðsemjendum á næstu dögum. Góð mæting var á fundinn og mikill hugur í sjómönnum, sem ekki sjá fyrir endann á hvernig boðaðar mótvægisaðgerðir eigi að koma þeim til góða.