Translate to

Fréttir

Skylduábyrgð stéttarfélaga gagnvart launafólki

Stéttarfélög, atvinnurekendur og stjórnvöld skipta milli sín ábyrgð á velferð launafólks vegna aldurs, við slys eða veikindi, vegna orlofs, starfsfræðslu o.fl.  Skýrast birtist það í skylduaðild að lífeyrissjóðum, sjúkrasjóðunum, orlofssjóðum og menntasjóðum. Stéttarfélögin hafa þannig tekið að sér tiltekið hlutverk í velferðarkerfinu fyrir allt vinnandi fólk. Af þeim ástæðum er greitt af öllum og allir njóta réttinda.

Til þess að standa straum af þessari þjónustu, og gerð lágmarkskjarasamninga sem gilda fyrir allt launafólk og alla atvinnurekendur óháð formlegri félagsaðild, eru jafnframt innheimt iðgjöld til stéttarfélaganna af öllum sem taka laun skv. kjarasamningum þeirra. Þannig deila stéttarfélögin innan ASÍ áhættu af velferð allra félagsmanna milli aðildarfélaga sinna og gilda um slíkt ákveðin lög og reglur. Um þessa áhættudreifingu stéttarfélaganna og sjóði ásamt iðgjöldum til þeirra er samið í viðeigandi kjarasamningum. Með þessum hætti eru réttindi allra sem starfa samkvæmt viðkomandi kjarasamningi tryggð óháð stéttarfélagsaðild. Réttindin eiga því við um alla starfsmenn sem starfa samkvæmt viðkomandi kjarasamningi þrátt fyrir að starfsfólk hafi val um að tilheyra stéttarfélögunum eða ekki. Þegar á reynir eiga þessir starfsmenn líka rétt á að tilheyra þessum sjóðum sem samið er um í kjarasamningum hafi vinnuveitandi greitt af þeim vinnuréttargjald og önnur iðgjöld sameiginlegra sjóða til viðkomandi stéttarfélags.

Rétt tilgreining viðeigandi kjarasamnings og stéttarfélags við ráðningu skiptir því miklu fyrir starfsmenn til þess að þeir geti áttað sig á réttarstöðu sinni í ráðningarsambandinu og þannig varið sig gegn réttindabrotum sem upp kunna að koma á vinnustaðnum.
Deila