Translate to

Fréttir

Starfsfólk HB- Granda fær launahækkanir – Setjum vestfirskt verkafólk við sama borð.

Hinar vinnadi hendur skapa hin raunverulegu verðmæti Hinar vinnadi hendur skapa hin raunverulegu verðmæti

Á starfsmannafundi hjá HB - Granda á föstudag tilkynnti forstjóri fyrirtækisins að áður frestaðar taxtahækkanir starfsfólks kæmu til greiðslu frá 1.mars eins og kjarasamningur kvað á um. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness, en fréttina í heild má lesa hér.  Verkalýðsfélag Vestfirðinga sendir starfsfólki HB - Granda árnaðaróskir með kjarabæturnar.

 

Með þessum hækkunum var stigið mikilvægt skref í rétta átt að bættum kjörum taxtalaunafólks hjá fyrirtækinu. Það er von okkar sem að þessum málum koma að önnur fyrirtæki sem standa vel fylgi í kjölfarið og greiði áður frestaðar launahækkanir frá 1.mars. Þann 5. mars sl. sendi stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga frá sér hvatningu til eigenda og stjórnenda fyritækja að þau sem betur stæðu ættu að sjá sóma sinn í því að greiða út umsamdar taxtahækkanir og tryggja að enginn taxti væri undir grunnatvinnuleysisbótum.  Þess má geta að lágmarkstekjutrygging fyrir fullt starf er kr. 157.000 á mánuði og þeir sem eru hlutaráðnir eiga hlutfallslegan rétt til þess sama.

 

Á Vestfjörðum eru nokkur stór og öflug fyrirtæki sem ættu að hafa góða burði til að standa við taxtahækkanir til starfsmanna sinna. Það ætti að vera keppikefli fyrir þessi fyrirtæki að láta starfsfólkið njóta meiri ávinnings af þeim verðmætum sem það hefur í gegnum tíðina skapað fyrirtækjunum með vinnuframlagi sínu. Í ljósi þessa skorar Verkalýðsfélag Vestfirðinga á atvinnurekendur að láta frestaðar launahækkanir koma til framkvæmda og sýna þannig í verki hversu mikils virði framlag starfsmanna er í rekstri fyrirtækjanna.

Deila