Translate to

Fréttir

Starfsgreinasambandið ítrekar ábyrgð fyrirtækja sem nýta sér starfsmannaleigur

Starfsgreinasamband Íslands lýsir yfir stuðningi við baráttu Eflingar og annarra stéttarfélaga við að tryggja réttindi launafólks. Starfsmannaleigur hafa verið að ryðja sér til rúms á íslenskum vinnumarkaði í auknum mæli á undanförnum misserum og hafa komið upp alltof mörg alvarleg tilvik um brot á réttindum og kjörum starfsfólks á þeirra vegum.

Þau fyrirtæki sem nota starfsmannaleigur verða að gera sér grein fyrir að þau bera fulla ábyrgð, skv. lögum um keðjuábyrgð, á því að starfmenn sem þau ráða í gegnum slíkar leigur njóti sambærilegra lög- og kjarasamningsbundinna lágmarkskjara og aðrir starfsmenn.

Það er algjörlega ólíðandi að það sé ítrekað brotið á erlendu starfsfólki sem kemur hingað til lands á vegum starfsmannaleiga og mun Starfsgreinasambandið nota öll tæki og aðferðir sem það hefur yfir að ráða til að stöðva slíkt háttalag og standa þétt við bakið á félagsmönnum og stéttarfélögum í þeirri baráttu.

Deila