Translate to

Fréttir

Starfsumhverfi starfsfólks við hótelþrif á Íslandi

Vegna aukins umfangs í ferðaþjónustu á Íslandi hefur starfsmönnum gististaða fjölgað mikið undanfarin ár. Í þeim hópi eru starfsmenn sem sinna hótelþrifum og ákvað Vinnueftirlitið að ráðast í könnun og úttekt á vinnuumhverfi þessa hóps samfara ábendingum um að gæta þurfi að starfsumhverfi hans sérstaklega. Markmiðið með átakinu var því að kanna vinnuumhverfi starfsfólks við hótelþrif á Íslandi og meta vinnuaðstæður og álag.

Átaksverkefnið gefur einnig innsýn í breyttan vinnumarkað á Íslandi þar sem mikil fjölgun erlendra starfsmanna blasir við. Rannsaka þarf betur vinnuumhverfi og hagi þeirra erlendu starfsmanna sem starfa hér á landi með viðameiri rannsókn en þannig má fá enn betri mynd af þeim raunveruleika með það að markmiði að efla vinnuvernd og tryggja heilsusamlegt vinnuumhverfi allra starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði.

Niðurstöður átaksins leiddu í ljós að vinnuumhverfi þeirra sem vinna við hótelþrif á Íslandi er að mörgu leyti ábótavant. Gefin voru mörg fyrirmæli sem sneru að líkamlegu álagi vegna ófullnægjandi vinnuaðstæðna þar sem var unnið í slæmum vinnustellingum m.a. vegna lágrar vinnuhæðar, þrengsla, erfiðs aðgengis og ófullnægjandi búnaðar. Verulega skorti á að skipulegt vinnuverndarstarf í forvarnarskyni væri til staðar því í tæplega 70% tilvika vantaði áætlun um öryggi og heilbrigði fyrir vinnustaðinn eða að áætlunin var metin ófullnægjandi. Áberandi var að áhættumat gagnvart líkamlegum álagsþáttum skorti auk forvarnaraðgerða og því voru gefin fjölmörg fyrirmæli þar að lútandi.

Í ljósi niðurstaðna átaksins er rík ástæða til þess að hvetja forsvarsmenn hótela og gististaða til þess að gera eða fara yfir gildandi áætlun um öryggi og heilbrigði á eigin vinnustað til að meta/endurmeta þá áhættuþætti sem hefur verið fjallað um í þessari skýrslu.

Ítarlegri upplýsingar um verkefnið og niðurstöður má lesa um á vef Vinnueftirlitsins.

Deila