Stjórn Verk-Vest óskar eftir samstarfi
Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga hefur sent fyrirtækjum og stofnunum á félagssvæðinu tilmæli um að forðast uppsagnir í lengstu lög í þeim efnahagsþrengingum sem þjóðin stendur frammi fyrir. Mælst er til þess að þeir sem þurfa að draga saman reyni frekar að leysa vandann með því að endurskoða starfshlutfall. Þá óskar stjórn félagsins eftir því að fulltrúar starfsmanna verði upplýstir um allar fyrirhugaðar breytingar á starfskjörum. Bent er á að óvissa og óöryggi hefur slæm áhrif á vinnumóral og afköst og mikilvægt sé því að starfsfólk sé meðvitað um stöðuna og geti haft áhrif á þær aðgerðir sem grípa þarf til.
Stjórn Verk-Vest óskar eftir samstarfi við atvinnurekendur um lausn þess vanda sem efnahagslægðin kann að hafa í för með sér, eða eins og segir í niðurlagi tilmælanna:
"Við núverandi aðstæður er brýnt að fyrirtæki og stéttarfélög eigi með sér gott samstarf um úrræði og lausnir sem miða að því að skapa sátt um aðgerðir á vinnumarkaði.
Þannig skapast traust og tryggt verður að þær aðgerðir sem grípa þarf til verði ekki í ósamræmi við réttindi og skyldur á vinnumarkaði eða rýri á neinn hátt réttarstöðu starfsfólks."
Tilmæli stjórnarinnar í heild má lesa hér.