Hin harða og óvægna aðför að launafólki sem birtist í fjárlagfrumvarpi 2015 á sér vart hliðstæðu hin síðari ár. Slík aðför er hvatning til launafólks inn í komandi kjaraviðræður um að láta sverfa til stáls.

Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga hvetur stjórnvöld til að koma í veg fyrir að óbreytt fjárlagafrumvarp nái fram að ganga um leið og stjórn félagsins bendir á nokkur alvarlegustu svikin sem boðuð eru í frumvarpinu.

• Lífeyrismál
Það eru alvarleg svik við launafólk að ætla skerða framtíðarlífeyrissparnað um allt að 4,5% með því að fella niður framlag til jöfnunar örorkubyrgða hjá almennu lífeyrissjóðunum sem var ein megin forsenda kjarasamninga árið 2005.

• Starfsendurhæfing
Það eru alvarleg svik að fella niður framlag ríkisins til starfsendurhæfingar. Afleiðingin mun þýða að skjólstæðingar ríkisins munu ekki fá þjónustu hjá VIRK starfsendurhæfingasjóði.

• Menntun
Það eru alvarleg svik við launafólk að skerða framlög til fullorðinsfræðslu og þannig takmarka möguleika til starfsnáms. Framlög til fullorðinsfræðslu var hluti af yfirlýsingu ríkisstjórnar með kjarasamningum 2011.

• Matarskattur
Hækkun matarskatts er alvarleg aðför að framfærslu launafólk. Hjá lágtekjufólki mun allt að 21% ráðstöfunatekna fara til matarinnkaupa. Slíkt er ólíðandi.

• Atvinnuleysisbætur
Algjört virðingarleysi gagnvart stöðu atvinnulausra birtist í skerðingu atvinnuleysisbóta með styttingu bótatímabils og takmörkun á framlögum til vinnumarkaðsúrræða fyrir atvinnulausa.

• Heilbrigðismál
Vanda heilbrigðiskerfisins er vellt yfir á almenning með aukinni þátttöku í lyfjakostnaði, hækkun komugjalda langt umfram verðlagsþróun og stóraukinni þátttöku í sérfræðiþjónustu.

Á sama tíma og almennu launafólki er ætlað að taka á sig niðurskurð og auknar álögur í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfi samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2015, er launfólki jafnframt ætlað að standa undir stöðugleika á íslenskum vinnumarkaði og bættu efnahagslífi.

Má með sanni segja að verði óbreytt fjárlagafrumvarp að veruleika hafi ríkisstjórnin sjálf gefið út ávísun á ófrið á vinnumarkaði. Félagsmenn Verk Vest þurfa því að undirbúa sig fyrir harðari deilur við gerð kjarasamninga en verið hefur um áratuga skeið.


Þingeyri 7. október 2014

Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.