Translate to

Fréttir

Stjórn Verk Vest mótmælir lokun svæðisútvarps Vestfjarða

Starfsstöð svæðisútvarpsins á Ísafirði Starfsstöð svæðisútvarpsins á Ísafirði

Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga mótmælir harðlega þeirri ákvörðun Ríkisútvarpsins ohf, að segja upp starfsfólki og loka starfsstöð svæðisútvarpsins á Vestfjörðum.

Miklu máli skiptir fyrir landsbyggðina að hafa ákveðinn vettvang þar sem málefni líðandi stundar, menning og fréttir innbyrðis á svæðinu fær góða umfjöllun. Slík umræða tengir landsbyggðina betur saman og styrkir sjálfsímynd íbúanna. Stuttir fréttapistlar af landsbyggðinni koma ekki í staðin fyrir svæðisútvarp sem tekur púlsinn á því hvað er að gerast heima í héraði hverju sinni. Litlar líkur eru á að slík umfjöllun myndi  rata inn í fréttatíma RÚV.  Að auki er nauðsynlegt að hafa aðgang að hlutlausum fréttamiðli á landsbyggðinni, þar sem öll sjónarmið hafi aðgang og styrkja þar með lýðræðislega umræðu á landsvísu.


Fyrir utan gríðarlega þjónustuskerðingu þá er minnt á nauðsynlegt öryggishlutverk RÚV fyrir þá sem starfa til lands og sjávar á Vestfjörðum. Með lokun svæðisstöðva RÚV á landsbyggðinni sannast enn og aftur hversu hrapalega hefur mistekist að gera RÚV að opinberu hlutafélagi.  

Deila