Stjórnarsamþykkt vegna lokunar Sólborgar á Flateyri
Á stjórnarfundi félagsins sem var haldinn í gær var samþykkt að félagið sendi frá ser eftirfarandi stjórnarsamþykkt vegna lokunar öldrunarheimilisins Sólborgar á Flateyri.
"Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga beinir þeim eindregnu tilmælum til heilbrigðisráðherra að ákvörðun Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða um lokun á öldrunarheimilinu Sólborg á Flateyri verði tekin til endurskoðunar og hún dregin til baka.
Sé það vilji núverandi stjórnvalda að viðhalda öflugri byggðastefnu í landinu og styrkja innviði smærri samfélaga þá er fækkun opinberra starfa á landsbyggðinni ekki rétta leiðin. Þá er ekki ljós sá sparnaður sem á að ná fram með lokun og uppsögn starfsfólks. Öllum má vera ljóst að eingöngu er verið að flytja fjármuni á milli vasa hjá ríkinu. Í stað þess að ríkisstofnunin Heilbrigðisstofnun Vestfjarða greiði starfsfólkinu laun, þá mun ríkisstofnunin Vinnumálastofnun greiða starfsfólkinu laun í formi atvinnuleysisbóta.
Verum þess minnug að stór skörð hafa verið höggvin í atvinnulíf Flateyringa með þeim afleiðingum að byggðarlagið hefur átt undir högg að sækja. Fordæmi stofnunarinnar er síst til þess fallið að styðja við nauðsynlega atvinnuppbyggingu á Flateyri."