Translate to

Fréttir

Stofnfundur Starfsendurhæfingar Vestfjarða

Góð samstaða Vestfirðinga um stofnun Starfsendurhæfingar Góð samstaða Vestfirðinga um stofnun Starfsendurhæfingar

Starfsendurhæfing Vestfjarða verður formlega stofnuð n.k. fimmtudag þann 25. september 2008. Undanfarið hefur starfshópur unnið að undirbúingi þessarar stofnunar en frumkvæðið að þeirri vinnu var hjá Lífeyrissjóði Vestfirðinga sem lét gera úttekt á þörf fyrir starfsendurhæfingu á Vestfjörðum.

 

Markmiðið með stofnun Starfsendurhæfingar á Vestfjörðum er að endurhæfa einstaklinga með skerta starfsgetu til atvinnuþátttöku í heimabyggð og auka þannig lífsgæði þeirra og fjölskylda þeirra. Markhópur starfsendurhæfingar eru einstaklingar með örorku eða endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins, eða einstaklinga sem njóta bóta frá lífeyrissjóðum, Vinnumálastofnun eða sveitarfélögum.

 

Miðað er við að starfsendurhæfingin efli fólk til sjálfshjálpar eftir þörfum hvers og eins m.a. með menntun og fræðslu, fjármálaráðgjöf, sálfræðistuðningi, líkamsþjálfun o.fl. Starfsendurhæfing miðar að því að gera einstaklingana sem hennar njóta virkari í samfélaginu en mikil aukning hefur verið í hópi öryrkja og brýnt að aðstoða fólk út á vinnumarkaðinn að nýju.

 

Fram að þessu hefur verið mikill skortur á úrræðum til þessa hóps sem hefur fallið út af vinnumarkaði í kjölfar veikinda eða slysa. Verður stofnun Starfsendurhæfingar í heimabyggð því væntanlega kærkomið tækifæri fyrir marga sem hafa einangrast frá vinnumarkaði vegna skertrar starfsgetu. Víðtækur stuðningur er við verkefnið og hafa þega tuttugu aðilar ákveðið að gerst stofnaðilar.

 

Undirbúningshópinn skipa: Arnheiður Jónsdóttir, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Guðrún Stella Gissurardóttir, Vinnumálastofnun, Karitas Pálsdóttir, Verkalýðsfélagi Vestfirðinga, Sigurborg Þorkelsdóttir, Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Sigurveig Gunnarsdóttir, Heilbrigðisstofnuninni, Ísafjarðarbæ. Stofnfundurinn verður haldinn á Hótel Ísafirði fimmtudaginn 25.september kl. 13.30
Deila