Translate to

Fréttir

Stuttur sáttafundur - viðræður árangurslausar

Samningaráð SGS yfirgefur húsnæði sáttasemjara fyrr í dag Samningaráð SGS yfirgefur húsnæði sáttasemjara fyrr í dag

Samningafundi Starfsgreinasambandsins (SGS) með Samtökum atvinnulífsins (SA) lauk í dag í húsnæði sáttasemjara án árangurs. Fundurinn hófst 10 í morgun en stóð í skamman tíma og samninganefnd SGS yfirgaf húsið án þess að vera með nýtt tilboð frá atvinnurekendum í farteskinu. Atkvæðagreiðslu um verkfall lýkur á mánudag en náist ekki að semja hefst verkfall hjá þúsundum verkafólks þann 30. apríl. Meginkrafa SGS hefur verið að lágmarkslaun fyrir fulla vinnu fari upp í 300.000 kr. á næstu þremur árum.

Forsvarsmenn SGS segja að krafan njóti mikils stuðnings, ekki einungis meðal almennings heldur einnig meðal margra atvinnurekenda. Forsvarsmenn SA hafa hins vegar lýst því yfir að krafan sé óaðgengileg og muni setja efnahagslífið bókstaflega á hliðina.

Björn Snæbjörnsson formaður SGS hafði þetta um málið að segja að loknum fundi hjá sáttasemjara „Það verður að viðurkennast að það kom okkur á óvart þegar við mættum til þessa fundar með Samtökum atvinnulífsins að heyra að þeir hafi engar tillögur eða tilboð fram að færa. Bæði í ljósi umræðunnar í þjóðfélaginu síðustu daga og ekki síður vegna þess hve skammt er í að afar umfangsmiklar verkfallsaðgerðir hefjist um land allt, sem viðbúið er að hleypa muni öllu í hnút. Það hlýtur að vera hagur allra að nota þann tíma sem við höfum og reyna að nálgast hvort annað við samningaborðið. Fulltrúar atvinnurekenda skila hins vegar enn auðu. Um leið finnum við gríðarlegan meðbyr með okkar kröfum úti í samfélaginu og heyrum í sífellt fleiri atvinnurekendum og öðrum fulltrúum fyrirtækja sem telja að svigrúm sé til að ganga til samninga við okkur á þeim grunni sem við höfum kynnt. Annað hvort berast þær skoðanir ekki til eyrna æðstu manna í SA eða þá að þeir eru að spila einhvern leik sem snýst um að halda fast við þessar skammarlega lágu hækkanir sem þeir buðu okkur í upphafi; 3-3,5%.”

Nánari upplýsingar veitir Björn Snæbjörnsson í síma 894 0729

Deila