Styrkum stoðum skotið undir atvinnulíf á Flateyri og Þingeyri
Fyrirtækin Arctic Oddi á Flateyri, Valþjófur og Vísir hf. héldu starfsmannafundi á Flateyri og þingeyri fyrr í dag þar sem framtíðaráform fyrirtækjanna um aðkomu að vinnslu sjávarafurða var kynnt. Fyrirtækin hafa einnig sent frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kemur að samkomulag hafi náðst milli fyrirtækjana um áframhaldandi starfsemi á Flateyri og Þingeyri. Með samkomulaginu vilja fyrirtækin leggja sitt lóð á vogaskálar þess að eyða óvissu um framtíð vinnslu sjávarafurða á Flateyri og Þingeyri og þannig styrkja stoðir atvinnulífs á báðum stöðum til langframa.
Leggja fyrirtækin mikla áherslu á samfellu í veiðum á vinnslu í breytingarferlinu þannig að sem fæst störf tapist. Gera má ráð fyrir tímabundinni fækkun starfa á meðan á breytingunum stendur, en þegar á næsta ári má gera ráð fyrir að á milli 20 - 25 störf skapist á báðum stöðum. Grundvöllur þess að vel takist til er að samkomulag náist við Byggðastofnun um ráðstöfun sértæks byggðarkvóta, en þau mál eigi að skýrast um miðjan desember.
Fulltrúar frá Verk Vest voru boðaðir á fundina til að fylgjast með og tryggja að réttindi starfsfólks yrðu varin í breytingaferlinu. Fulltrúar allra fyrirtækjanna lögðu áherslu á að eiga gott samstarf við starfsfólk og stéttarfélag í ferlinu þannig að rétt yrði staðið að öllum breytingum sem snúa að starfsfólkinu. Félagið fagnar þeirri samfélagslegu ábyrgð sem fyrirtækin hafa sýnt með samkomulaginu. Þrátt fyrir að fyrirtækin séu í raun keppinautar á viðskiptalegum grundvelli leggja þau í sameiningu grunn að strekara atvinnulífi á svæðinu með samstarfi sín í milli.