Translate to

Fréttir

Sumarsólstöðuferð Verk Vest 21. júní 2014

Við verksmiðjuhús Norðursalts í Karlsey við Reykhóla Við verksmiðjuhús Norðursalts í Karlsey við Reykhóla
Siglt með Kjóa yfir í Skáleyjar Siglt með Kjóa yfir í Skáleyjar
Reykhólasveitin skartaði sínu fegursta í veðurblíðunni Reykhólasveitin skartaði sínu fegursta í veðurblíðunni
Hilmar Páls segir Birni leiðsögumanni veiðisögu Hilmar Páls segir Birni leiðsögumanni veiðisögu
Í Skáleyjum Í Skáleyjum
Komið að Skáleyjum Komið að Skáleyjum
Jóhannes Skáleyjarjarl Jóhannes Skáleyjarjarl

Verkalýðsfélag Vestfirðinga stóð fyrir dagsferð á sumarsólstöðum og var ferðinn heitið í Reykhólasveitina að þessu sinni. Góður hópur eldri og yngri félagsmanna lagði af stað frá Ísafirði kl.09.00 laugardagsmorguninn 21. júní vel nestaður fyrir daginn enda venjan í þessum ferðum að félagið bjóði upp á kaffibrauð og annað góðgæti. Fyrsta stopp var í Reykjanesinu þar sem fólk létti á sér og bætti á sig ís, en í Reykjanesinu bættist enn í hópinn. Næsta áning var í Arnkötludal við minnisvarða frá árinu 2009 um þann merka áfanga að þá var loksins hægt að aka á bundnu slitlagi frá Ísafirði til Reykjavíkur. Var ákveðið að taka nestisstopp enda komið fram undir hádegi. Þarna hittum við leiðsögumann dagsins Björn Samúelsson frá Reykhólum. Björn er mjög fróður um sögu sveitarinnar enda fæddur og uppalinn í Reykhólasveitinni, nánar tiltekið á Höllustöðum. 

Náttúrufegurð Reykhólasveitar er mikil og margir merkisstaðir að skoða og fræðast um. Umhverfi sveitarinnar sem opnast þegar komið er niður Gautsdalinn er mikilfengleg, enda hefur yngsta eldstöð Vestfjarða, Króksfjarðareldstöð sem gaus síðast fyrir um 4500 árum, mótað landslagið á mjög sérstakan hátt. Má sem dæmi nefna einkennisfjöll sveitarinnar, Vaðalfjöll fyrir ofan Bjarkalund. Af Vaðalfjöllum má sjá yfir 14 sýslur í góðum veðurskilyrðum eða allt norður á Tröllaskaga. Ferðinni var heitið niður í Karlsey til að skoða saltverksmiðju Norðursalts. Þar tók fékk hópurinn fræðslu um saltvinnslu hjá þessu unga fyrirtæki og komst að raun um að salt er ekki það sama og salt. Kom fram að verksmiðjan annar ekki eftirspurn og er öll framleiðslan seld jafn óðum. Eftir hópmyndatöku og saltverslun var haldið sem leið liggur út á Reykjanesið að Stað. Staður er sögusvið bókanna Pilts og stúlku og Manns og konu eftir eitt af höfuðskáldum sveitarinnar Jóns Thóroddsen.

Frá bryggjunni á Stað var farið með svokölluðum „Rib“ bát út í Skáleyjar. Var mikil upplifun að sigla um Breiðafjörðinn í blíðsskaparveðri á fljúgandi siglingu. Með í för var Skáleyjajarlinn Jóhannes Geir Gíslason fyrrum ábúandi í Skáleyjum, en fjölskylda hans hefur búið í eyjunum í sex kynslóðir. Föst búseta var í Skáleyjum allt til ársins 2002 en í dag er eingöngu sumarbúseta í eyjunum. Fjölskyldan nytjar eyjarnar áfram og dvelur þar nema þegar „kapítalískar þarfir nútímasamfélagsins“ koma í veg fyrir að unga fólkið komist út í eyjarnar eins og Skáleyjarjarlinn hafði á orði. Eftir að hafa fræðst um sögu og búskaparhætti eyjanna var haldið til Reykhóla til að skoða Hlunnindasafnið. Þar hafði deildarformaður Verk Vest á Reykhólum, Ingvar Samúelsson, slegið upp veisluborði innan um merkilega safngripi fyrir svanga sjófarendur. Á meðan ferðafélagarnir gæddu sér á góðgætinu var farið yfir tilurð safnsins og sýningarinnar. Það er enginn svikinn af því að eiga viðkomu á Reykhólum og fræðast um öll þau hlunnindi sem 4300 Breiðafjarðareyjar gefa af sér. Þessu næst var haldið aftur niður í Karlsey þar sem hópinn fræddist um starfsemi Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum. Verksmiðjan hefur nýverið fengið vottun Heilbrigðiseftirlitsins um að mega framleiða matvæli. Sú vottun er mikið hagsmunarmál gefur verksmiðjunni tækifæri til stækkunar og fullvinnslu afurða. 

Síðasti viðkomustaður hópsins var við þaraböðin á Reykhólum, en þar sem nokkuð hafði teygst úr ferðinni var búið að tæma böðin fyrir nóttina og því gafst ekki færi á þarabaði og verður slíkt bað að bíða betri tíma. Síðasta stopp dagsins var á Hótel Bjarkalundi sem er elsta sveitahótel landsins. Þar var borðaður kvöldverður áður en haldið var aftur til Ísafjarðar með bílstjóra ferðarinnar, Guðbrandi Baldursyni frá Vatnsfirði sem ferðalangar voru sammála um að hefði staðið sig frábærlega í ferðinni. Það voru þreyttir en glaðir ferðalangar sem kvöddust undir miðnætti Takk fyrir okkur Verk Vest.

Deila