Translate to

Fréttir

Sveitarfélögin þráast enn við - Starfsgreinasambandið vísar deilunni til sáttasemjara

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands hefur vísað kjaradeilu sambandsins við sveitarfélögin til ríkissáttasemjara. Hvorki hefur gengið né rekið í viðræðum deiluaðila þó samningar hafi nú verið lausir í hálft ár.
Í frétt á vef Starfsgreinasambandsins segir:
"Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands vegna samninga við Samband íslenskra sveitarfélaga, mótmælir harðlega þeirri stefnu sveitarfélaganna að draga til baka þær leiðréttingar sem starfsmenn þeirra  innan SGS, hafa fengið á undanförnum árum.
Tillaga SNS er í algjörri andstöðu við þá launastefnu sem mörkuð hefur verið á vinnumarkaðnum á liðnum vetri. Samningar hafa nú verið lausir í sex mánuði, en  um þrjár vikur eru síðan SNS lagði fram tilboð sitt um launahækkanir.
Frá upphafi hefur samninganefnd SGS sagt að aðferðafræði SNS gengi ekki upp og vísað í þá samninga sem ríkið og Reykjavíkurborg hafa gert við sambærilega hópa. "

Ekki verður sagt að þarna blási byrlega og stefnir í hörð átök.
Formaður samninganefndar SGS, Signý Jóhannesdóttir, er ómyrk í máli um afstöðu sveitarfélaganna í grein á vef Starfsgreinasambandsins.

Flóabandalagið- Efling stéttarfélag, Verkalýðsfélagið Hlíf og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur hafa einnig vísað sinni kjaradeilu við Samninganefnd Sveitarfélaganna til ríkissáttasemjara.
Sáttasemjari hefur boðað deiluaðila til fundar í dag.
Deila