Þing ASÍ - UNG
Þriðja þing ASÍ-UNG verður haldið í dag,12. september, undir yfirskriftinni „Samfélag fyrir alla ... líka unga fólkið“. Öll aðildarfélög ASÍ, rúmlega fimmtíu talsins, hafa rétt til að senda fulltrúa á þingið. Fulltrúi Verk Vest er Þórdís G. Guðmundsdóttir trúnaðarmaður félagsins hjá Samkaupum á Ísafirði.
En hvað er ASÍ -UNG ?
Félagsmenn aðildarfélaga ASÍ eru um 110 þúsund. Stór hluti þess hóps er á aldrinum 16-35 ára en á þeim aldri er ungt fólk að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum, öðlast mikilvæga starfsreynslu, stofna fjölskyldur og kaupa íbúðarhúsnæði svo eitthvað sé nefnt.
Það er mikilvægt að rödd þessa hóps heyrist innan Alþýðusambandsins og því var ákveðið á þingi ASÍ 2010 að stofna vettvang fyrir ungt launafólk innan aðildarfélaga ASÍ. Fyrsta þing ASÍ-UNG var svo haldið á vormánuðum 2011.
Meðal helstu verkefna ASÍ–UNG er að kynna ungu fólki á vinnumarkaði réttindi þeirra og skyldur og starfsemi stéttarfélaganna.
Þá er ASÍ-UNG ætlað að tryggja að hugað sé að stöðu og hagsmunum ungs launafólks í stefnu verkalýðshreyfingarinnar og að rödd unga fólksins heyrist í starfi og stefnumótun stéttarfélaganna.