Þing SGS ályktar um Atvinnu- og húsnæðismál
Ályktun um atvinnumál
4. þing Starfsgreinasambands Íslands, haldið í Hofi á Akureyri dagana 16.-18. október 2013, minnir á þau grundvallarmannréttindi að hafa aðgang að vinnu. Þó vissulega hafi náðst ákveðinn árangur í baráttunni við atvinnuleysið þá eigum við enn langt í land að ná viðunandi stöðu í atvinnumálum. Atvinnuleysi er mikið og vinna verður af hörku gegn því. Hafa verður í huga að bak við opinberar atvinnuleysistölur er falið atvinnuleysi. Launafólk hefur sótt vinnu erlendis, fallið út af vinnumarkaði, tæmt bótarétt sinn, sótt nám og tekið þátt í vinnumarkaðsaðgerðum. Það er sameiginlegt verkefni að vinna gegn atvinnuleysi með fjölbreyttum vinnumarkaðsúrræðum og fjölgun starfa.
Þing Starfsgreinasambandsins leggur jafnframt áherslu á að ný fyrirtæki, hvort sem þau eru smá eða stór, byggi upp sína atvinnustarfsemi í góðri sátt við stéttarfélög launafólks og innan þeirra reglna sem vinnumarkaðurinn hefur sett sér. Það er með öllu óþolandi að í ákveðnum atvinnugreinum þrífist svört atvinnustarfsemi og gerviverktaka í stórum stíl. Slíkt er ólíðandi og á ábyrgð okkar allra að vinna gegn. Það er vaxandi áhyggjuefni að hér á landi fjölgi þeim sem vinna svart. Þetta fólk er algjörlega réttindalaust sem er óásættanlegt. Nauðsynlegt er að halda áfram og efla samstarf verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda og ríkisskattstjóra. Þing SGS leggur áherslu á að yfirvöld fái auknar heimildir til að beita hörðum viðurlögum gegn svartri atvinnustarfsemi.
Ályktun um húsnæðismál
“Húsnæði – mannréttindi ekki forréttindi”
4. þing Starfsgreinasambands Íslands, haldið í Hofi á Akureyri dagana 16. - 18. október 2013, lýsir yfir þungum áhyggjum af slæmu ástandi húsnæðismála á Íslandi. Sífellt verður erfiðara fyrir fólk að kaupa eða leigja húsnæði og eiga fjölmargir erfitt með að standa undir hækkandi afborgunum lána eða húsaleigu. Stjórnvöld verða að koma til móts við kaupendur meðal annars í formi skattaívilnunar sem tryggir hraðari eignamyndun og huga að þeim sem misst hafa sína fasteign vegna þess að forsendur brugðust við hrun bankanna. Jafnframt leggur þingið áherslu á að húsaleigubætur verði hækkaðar og skerðingarmörkin endurskoðuð.
Þing Starfsgreinasambandsins hvetur stjórnvöld í samstarf við banka og aðrar lánastofnanir til að veita ungu fólki sérstakan stuðning til dæmis í formi sparnaðarreiknings sem myndi njóta góðra vaxtakjara og hagstæðrar skattalegrar meðferðar við fyrstu kaup á fasteign. Unga fólkið verður einfaldlega að fá tækifæri til að stíga sín fyrstu skref inn á fasteignamarkaðinn.
Þing Starfsgreinasambandsins leggur áherslu á að hér verði byggt upp húsnæðiskerfi á félagslegum grunni til að tryggja öllum viðunandi húsnæði og bendir í því sambandi á tillögur ASÍ í húsnæðismálum.
Þing Starfsgreinasambandsins krefst þess að ríkisstjórnin ásamt sveitarstjórnum hefji tafarlaust samstarf með aðilum vinnumarkaðarins til að leysa þann húsnæðisvanda sem þjóðin glímir við í dag.