Translate to

Fréttir

Þing SGS ályktar um kjaramál

4. þing Starfsgreinasambands Íslands, haldið í Hofi á Akureyri dagana 16.-18. október 2013, telur að vegna óvissu í efnahagsmálum á næstu misserum sé ekki ráðlegt að semja til langs tíma. Þingið leggur áherslu á að í komandi kjarasamningum verði ríkisstjórnin krafin um efndir á fyrirheitum sem gefin voru í kosningabaráttunni sl. vor og bæta eiga hag heimilanna.

Þing Starfsgreinasambandsins fordæmir skattabreytingar sem færa tekjuhæstu hópum samfélagsins umtalsverða skattalækkun á meðan skattbyrði láglaunahópa helst óbreytt og krefst þess að því svigrúmi sem er til skattalækkana verði ráðstafað til þeirra sem minnst hafa milli handanna. Þingið leggur áherslu á kaupmáttaraukningu í komandi kjarasamningum með sérstakri áherslu á hækkun lægstu launa og hækkun persónuafsláttar.


Þær stéttir sem eru á lægstu töxtunum eru oftar en ekki fólk innan okkar raða. Hækkun lægstu launa er áhrifaríkasta tækið til að auka launajafnrétti þó vissulega þurfi meira að koma til. Nauðsynlegt er að meta nám betur til launa. Fjöldi launafólks hefur undanfarin ár aukið við færni sína á vinnumarkaði í gegnum styttri námsbrautir og með styrk frá starfsmenntasjóðum. Aukin menntun og hæfni starfsfólks þarf að endurspeglast í hærri launum.


Þing Starfsgreinasambandsins vill brjóta á bak aftur þá láglaunastefnu sem hefur ríkt hér á landi á undanförnum árum og áratugum. Arðgreiðslur í útflutningsgreinum sýna hversu vel þær eru í stakk búnar til að veita starfsfólki aukna hlutdeild í þeim mikla hagnaði sem þar hefur skapast undanfarin ár. Barist verður af alefli fyrir því að lagfæra kjör verkafólks svo um munar í komandi kjarasamningum!

Greinargerð

Það er mat þings SGS að leiðrétting á launum verkafólks muni skila sér í aukinni einkaneyslu, auknum hagvexti og einnig mun veruleg hækkun lágmarkslauna skila sér í auknum skatttekjum til ríkis og sveitarfélaga. Veruleg hækkun launa verkafólks er lífsnauðsynleg fyrir samfélagið allt!


Vegna óvissu í efnahagsmálum á næstu misserum telur þing Starfsgreinasambandsins ekki ráðlegt að semja til langs tíma en skammtímasamningar hljóta hins vegar að taka mið að því að áfram verði unnið að réttindamálum launafólks á milli samninga með langtímasamninga að leiðarljósi. Með þeim hætti verði lagður grunnur að stöðugleika sem er forsenda fyrir auknum kaupmætti. Sú ábyrgð og agi sem þarf til að halda verðbólgu í skefjum og byggja undir stöðugleika í framtíðinni má ekki eingöngu vera á ábyrgð launafólks heldur verður ríkisvaldið, sveitarfélög og atvinnurekendur að sýna svo ekki verði um villst að þau ætla að axla slíka ábyrgð. Á meðan niðurskurði í velferðarþjónustu er velt yfir á launafólk í formi notendagjalda hljótum við að krefjast hærri launa til að halda kaupmætti.


Þing Starfsgreinasambandsins telur gríðarlega mikilvægt að sátt skapist um að lágmarkslaun og launataxtar verkafólks verði hækkaðir svo um munar. Það hefur lengi legið fyrir að launataxtar verkafólks eru langt fyrir neðan öll opinber framfærsluviðmið, sem gerir það að verkum að nánast útilokað er fyrir verkafólk að framfleyta sér og sínum með mannlegri reisn á þeim lágmarkslaunum sem kjarasamningar kveða á um.
Deila