Þingi Starfsgreinasambands Íslands slitið
Öðru þingi Starfsgreinasambands Íslands er lokið. Í ræðu sinni við slit þingsins sagði Kristján Gunnarsson m.a., að atvinnulíf og stjórnmál hefðu um of verið lituð af hagsmunum fámennra hópa. Endurreisnin þurfi að fara fram á forsendum launafólks.
Ræða Kristjáns fer hér á eftir.
Góðir félagar
Nú er komið að lokum annars þings Starfsgreinasambands Íslands. Við höfum unnið vel og það hefur ríkt mikil eindrægni á þinginu.
Við höfum fjallað um mörg mikilvæg mál og afgreitt afgerandi ályktanir og stefnumörkun í stórum málaflokkum. Ályktanir um kjaramál, málefni heimilanna, Evrópumál og Icesave auk stefnumörkunar í málefnum ferðaþjónustunnar, sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum og málefnum heimilanna senda skýr skilaboð út í samfélagið.
Það var athyglisverður samhljómurinn í ávörpunum við setningu þingsins. Bæði félagsmálaráðherra og forseti ASÍ töluðu einum rómi um mikilvægi þess að afgreiða Icesave málið strax, þannig að hægt sé að snúa sér að brýnum verkefnum í uppbyggingunni. Ég er þess fullviss að þau skýru skilaboð sem við sendum frá þinginu varðandi þetta mál munu vekja athygli. Ég vona svo sannarlega að mark verði tekið á þeim.
Í setningarávarpi mínu gerði ég að umtalsefni nauðsyn þess að við töluðum einum rómi. Það er okkar sterkasta vopn. Ég sagði jafnframt að við hefðum ef til vill ekki hugað nægilega vel að því á undanförnum árum.
Ég bind miklar vonir við að þetta þing boði þáttaskil í því sambandi. Hér hefur ríkt mikil eindrægni og við höfum talað okkur niður á sameiginlega niðurstöðu í öllum málum.
Það er gott vegarnesti fyrir okkur í þeirri vinnu sem er framundan. Okkar bíður það risavaxna verkefni að taka virkan í endurreisn innviðanna í íslensku samfélagi. Og eins og yfirskrift þessa þings ber með sér - þá ætlumst við til þess að endurreisnin verði á okkar forsendum. Þetta skiptir höfuðmáli. Undanfarna áratugi hafa atvinnulíf og stjórnmálin um of litast af hagsmunum annarra og skefjalausri græðgi fámennra hópa. Afleiðingarnar eru þær að við stöndum í rústunum af atvinnulífi sem er búið að blóðmjólka til að greiða fyrir blauta drauma útrásarliðsins.
Ég sagði í setningarávarpi mínu að fjórðungur þjóðarinnar bæri traust til verkalýðshreyfingarinnar og að þriðjungur treysti henni ekki.
Okkar bíður því einnig það verkefni að endurvinna hreyfingu okkar traust í samfélaginu.
Góðir félagar
Fyrr í dag var kosin ný framkvæmdastjórn. Tveir félagar hætta í framkvæmdastjórn, þau Guðjón Arngrímsson, sem verður varasviðsstjóri og Ragna Larsen. Ný í framkvæmdastjórn kemur Halldóra Sveinsdóttir frá Bárunni, stéttarfélagi. Ég býð hana velkomna til starfa. Eins og hefur komið rækilega fram á þinginu, hættir Aðalsteinn Baldursson sem sviðsstjóri matvælasviðs. Ég þakka honum fyrir kröftug störf hans á umliðnum árum. Við Aðalsteinn munum áfram vinna saman af heilindum og ég treysti honum til góðra verka. Ég veit að hann mun standast þær væntingar.
Ég vil fá að kalla Rögnu hingað upp til mín þannig að við getum fært henni lítinn þakklætisvott. Guðjón er ekki með okkur á þessu þingi, en það verða hæg heimatökin hjá mér að flytja honum hlýjar kveðjur héðan.
Ég vil ennfremur nota þetta tækifæri til að kalla hér upp góðan félaga okkar til margra áratuga, Snæ Karlsson, sem nýlega lét af störfum á skrifstofu Starfsgreinasambandsins. Samtals starfaði Snær á skrifstofu Verkamannasambandsins og síðan Starfsgreinasambandsins í um 20 ár. Þar hefur hann verið kjölfesta og þeir félagar sem leitað hafa til Snæs geta borið að Snær er einstaklega bóngóður og ráðsnjall maður.
Félagi Snær. Hafðu þakkir okkar allra fyrir allt það starf sem þú hefur unnið fyrir verkalýðshreyfinguna á umliðnum árum og áratugum og ég vil þakka þér fyrir hönd okkar allra fyrir að vera frábær félagi. Við eigum örugglega eftir að leita í smiðju þína eftir ráðum þótt þú hafir formlega látið af störfum á skrifstofunni.
Ég vil jafnframt þakka þingforsetum og riturum fyrir þeirra röggsömu stjórn á þinginu. Ennfremur þakka ég öðru starfsfólki þingsins fyrir góð störf.
Þingfulltrúum þakka ég gott þing og óska öllum góðrar heimferðar.
Góðir félagar,
Við förum af þessu þingi vel vopnuð kröftugum ályktunum og vandaðri stefnumótun. Við höfum verið brýnd til góðra verka og við ætlum að standa undir þeim væntingum sem til okkar eru gerðar. Vonandi bíta þau vopn sem við brýndum hér á þinginu. Ég fer héðan fullur bjartsýni og áhuga á verkefnum morgundagsins.
2. þingi Starfsgreinasambands Íslands er slitið.