Translate to

Fréttir

Þjóðarsátt - hver á að borga ?

Finnbogi Sveinbjörnsson - formaður Verk Vest. Finnbogi Sveinbjörnsson - formaður Verk Vest.
Fréttir þess eðlis að þjóðarsátt væri á næstu grösum hefur farið sem eldur í sinu í dag.  Skemmst er frá að segja eins og kemur fram í viðtali í svæðisútvarpi Vestfjarða við formann félagsins, að umrædd þjóðarsátt er ekki einu sinni í sjónmáli hvað þá að alvarlegar umræður hafi farið fram. Það væri undarleg sátt ef verkafólk ætti við núverandi aðstæður að taka við slíku kosta boði eins og einhverri frelsun.  Þegar sátt er náð þá á sáttin ekki að felast í því að annar aðilinn fari helsærður frá samningaborðinu og verði vart hugað líf næstu árin. Ekki verður hægt að saka almennt launafólk um að vera helsti orsakavaldurinn að því ástandi sem ríkt hefur í íslensku efnahagslífi undanfarna mánuði.

 Eftir að hafa gengið frá mjög hófstilltum kjarasamningum, sem miðuðu að því einu að bæta kjörin og viðahlda lágri verðbólgu, hafa aðstæður breyst til hins verra með skelfilegum afleiðingum fyrir heimilin í landinu. Og nú á að koma þeim til hjálpar sem hafa stuðlað að hve mestu ójafnvægi í íslensku efnahagslífi, og það eru engir smáaurar, fyrsta inngjöfin er tæpir 40 milljarðar. Rétt að minna á örlæti ríkisstjórnarinnar með mótvægisaðgerðum vegna niðurskurðar á þorskkvóta, þar var aldeilis ausið út fjármunum eða hitt þó heldur. Rúmir 10 miljarðar, þar af tæpir 6 milljarðar eyrnamerktir flýtiframkvæmdum, mest í samgöngu og fjarskiptamálum. Og þá voru nú aðstæðurnar aðrar, allt í blússandi uppgangi hjá fjármálageiranum og afgangur af fjárlögum ríkisstjórnarinnar.

Þjóðarsátt við þær aðstæður sem eru nú í þjóðfélaginu verður ekki þjóðarsátt sem verkafólki verður ætlað að taka á sig birgðarnar að mestu leiti eins og áður. Íslenskum almenningi hefur ekki verið boðið að gægtarborði fjármagnseigenda og væri því ósangjörn krafa um að þegar harðnar í ári hjá fjármagnseigendum þá sé almenningi gert að skaffa það sem á vantar. Nei, nú er komið að breiðu bökunum að bera stærri birgðar, þeirra er borðið. Það eru til fjármunir í þjóðfélaginu, þeim er bara ekki réttlátlega skipt.




    
Deila