Þolinmæðin á þrotum – Við viljum vinna !
Það var þungt hljóðið í fundarmönnum á fundi formanna og varaformanna aðildarfélaga ASÍ sem fram fór á Grand Hótel í Reykjvík í gær. Þung orð voru látin falla um þá undarlegu hegðun sem SA og ríkisstjórnin hafa sýnt af sér eftir að hinn svokallaði „Stöðugleikasáttmáli" var undirritaður fyrir 9 mánuðum síðan. Meðgöngutími sáttmálans hefur verið launafólki mjög erfiður, ítrekuð svik ríkisstjórnar við ákvæði sáttmálans í formi skattahækkana og árása á velferðarkerfið hafa komið verulega illa við buddu launafólks.
Þá er ekki hægt að segja annað en Samtök Atvinnulífsins (SA) sýni loks sitt rétta andlit með hótanir um að segja sig frá sáttmálanum út af Skötuselsfrumvarpi ríkisstjórnarinnar. SA sem hefur hagnast umtalsvert á sáttmálanum hefur látið það óáreitt þótt fyrirtækin í landinu velti kostnaðarhækkunum út í verðlagið með þeim afleiðingum að verðbólga hefur farið vaxandi að undanförnu.
Samstaða þeirra fjölmörgu aðila sem komu að sáttmálanum er afar mikilvæg svo unnt sé að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað. Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins verða að taka höndum saman um að vinna þjóðina út úr þeim gríðarlega vanda sem hún stendur frammi fyrir. Stjórnvöld verða að ganga á undan með gott fordæmi og standa við ákvæði sáttmálans.
Verklýðshreyfingin hefur haft það fyrir reglu að standa við gerða samninga og ætlast til þess sama af viðsemjendum sýnum.. Við viljum að ríkisstjórnin láti verkin tala, farið verði í þær framkvæmdir sem skrifaðar voru inn í sáttmálann til að koma efnahagslífinu í gang og minka með því atvinnuleysið. Verði þetta ekki gert strax stefnir í mun verri stöðu en við höfum kynnst í mjög langan tíma. Þolinmæði launþega er á þrotum verði ekkert að gert til að bæta stöðu þeirra. Við viljum vinna! og það strax !