Translate to

Fréttir

Þörungavinnslan á Reykhólum til fyrirmyndar í forvörunm

Eggert Ólafsson trúnaðarmaður Verk Vest er til hægri á myndinni. Eggert Ólafsson trúnaðarmaður Verk Vest er til hægri á myndinni.
Þörungavinnslan á Reykhólum var valin fyrirmyndarfyrirtæki VÍS í forvörnum árið 2010. Bílson bílaverkstæði og Strætó bs. hlutu einnig viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í forvörnum. Verðlaunin voru afhent í fyrsta sinn á sameiginlegri ráðstefnu félagsins og Vinnueftirlitsins um forvarnarmál sem hátt í 180 manns tóku þátt í. Þörungavinnslan fékk afhentan veglegan farandgrip til varðveislu næsta árið. Forvarnarverðlaunum VÍS er ætlað að undirstrika mikilvægi þess að vinna skipulega að öryggis- og forvarnarmálum. Forvarnarverðlaunin verða veitt árlega, þeim viðskiptavinum VÍS sem þykja hafa skarað fram úr í öryggis- og forvarnarmálum, eins og fram kom í setningarávarpi Guðmundar Arnar Gunnarssonar, forstjóra VÍS, á ráðstefnunni. Hann sagði verðlaunin þátt í breyttri forvarnarstefnu félagsins þar sem forvarnir væru orðnar mun sýnilegri hluti af starfseminni og í stað nokkurra forvarnafulltrúa áður væri allt starfsfólk VÍS nú forvarnafulltrúar.

„Með skipulegum og réttum forvörnum má afstýra miklum mannlegum þjáningum og spara gríðarlega fjármuni," sagði Guðmundur Örn Gunnarsson og nefndi sem dæmi að 9.000 manns þurfi árlega að leita sér aðstoðar hérlendis vegna vinnuslysa og rannsóknir á Vesturlöndum bendi til að 3-4% af landsframleiðslu glatist vegna heilsutjóns, sem samsvarar 45-60 milljörðum króna á Íslandi. Þá sé ótalið mikið eignatjón sem hefði mátt afstýra ef rétt hefði verið staðið að öryggis- og forvarnamálum. Guðmundur Örn undirstrikaði mikilvægi góðs samstarfs við opinbera aðila sem fjalla um og hafa eftirlit með öryggis- og forvarnamálum hér á landi og hvatti til þess að allir sem að þessum málum koma snéru nú bökum saman í því árferði sem ríkir og hjálpist að við að efla og bæta forvarnir í samfélaginu. Frá þessu segir á BB.IS
Deila