Þotuliðið sækir ekki ráð til launafólks
Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum í dag er Geir H. Haarde forsætisráðherra á leið til Riksgränsan í Norður Svíþjóð á fund norrænu forsætisráðherranna. Á þessum fundi munu forsætisráðherrar Norðurlandanna ræða þau tækifæri og áskoranir sem fylgja hnattvæðingunni undir yfirskriftinni ,,Samkeppnishæf Norðurlönd í hnattvæddum heimi''. Til þessa fundar er boðið norrænu samstarfsráðherrunum auk fulltrúa frá Norðurlandaráði, sjálfstjórnarsvæðum, iðnaðar- og atvinnulífi, mennta- og rannsóknaumhverfinu, íbúasamtökum og ráðuneytum. Héðan frá Íslandi býður forsætisráðherra Þorsteini Pálssyni, ritstjóra Fréttablaðsins og Hannesi G. Sigurðssyni aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulísins.
Einnig munu taka þátt í fundinum Uffe Elleman Jensen frá Baltic Development Forum, forseti Norðurlandaráðs Erkki Tuomioja, aðstoðarframkvæmdastjóri Vattenfalls í Svíþjóð Lars Josefsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Telenors í Noregi Jon Fredrik Baksaas, rithöfundurinn Kjartan Fløgstad, aðstoðarframkvæmdastjóri finnska skógariðnaðarins Anne Brunila ásamt yfirmanni Google á Norðurlöndunum Nicklas Lundblad.
Það vekur óneitanlega mikla athygli að forsætisráðherrum Norðurlandanna skuli ekki hugkvæmast að bjóða fulltrúum samtaka launafólks að taka þátt í þessum umræðum. Það eru fá málefni sem fengið hafa jafnmikla umræðu innan verkalýðshreyfingarinnar á innlendum, norrænum, evrópskum og alþjóðlegum vettvangi og áhrif hnattvæðingarinnar á stöðu launafólks. Verkalýðshreyfingin hefur litið svo á, að mikil tækifæri felist í hnattvæðingunni ef vel er að málum staðið - en því miður hafa neikvæð áhrif hennar víðast verið yfirgnæfandi í umræðunni. Í ljósi þess hve mjög ASÍ hefur látið sig þessi mál varða vekur val íslenskra stjórnvalda á gestum mikla furðu.
Það á að heita svo að öll þessi samfélög, sem þessir forsætisráðherrar eru fulltrúar fyrir, kenni sig við það sem nefnt hefur verið Norræna samfélagsgerðin. Það sem einkennir þessa samfélagsgerð er að ríkt hefur náið samráð og samstarf milli samtaka atvinnurekenda, verkalýðsheyfingar og stjórnvalda. Á norrænum vettvangi hefur NFS, Norrænu samtök verkalýðsfélaga, lengi hvatt til nánara samstarfs og samráðs um áhrif hnattvæðingarinnar. Þeirri tillögu hefur verið mætt af miklu áhugaleysi samtaka atvinnurekenda, einkum þeirra sænsku, og Norræna ráðherraráðið hefur af þeim sökum ekki talið forsendu fyrir slíku samstarfi.
Ljóst er af þessum fundi í Riksgränsan hvert forsætisráðherrarnir hyggjast sækja hugmyndir að leiðum til að tryggja samkeppnishæf Norðurlönd. Það er örugglega ekki til launafólks.