Þrautarlending við þvergirðing! – Hvar er “töfratæki” SA ?
Viðræðum slitið !
Fulltrúar 16 stéttarfélaga af landsbyggðinni hafa nú reynt til þrautar að ná fram sanngjarnri lendingu í kjaraviðræðum sem byggir á að hækka lágmarkslaun verkafólks í 300.000 krónur innan 3ja ára. Þessum kröfum sem mótaðar hafa verið af verkafólki í landinu hafa fulltrúar atvinnurekenda hafnað án þess að leggja fram tillögur til lausnar deilunni. Af miklum „rausnarskap” hafa þeir boðið 3,5 – 4% launahækkun á línuna. Það þýðir 7 – 8.000 króna hækkun mánaðarlauna fyrir verkafólk á móti 50 – 150.000 króna hækkun mánaðarlauna hjá stjórnendum og forstjórum.
Hvað var í boði !
Samtök atvinulífsins hafa ítekað bent á að þeir ætli ekki að semja um krónutöluhækkanir, þau ætli að semja í prósentum. Tökum lítið dæmi um prósentuleikfimi. Fiskvinnslufólk er með um 220.000 kronur í mánaðarlaun fyrir dagvinnu. 3,5% hækkun gerir 7.700 króna hækkun mánaðarlauna. Horfum síðan til millistjórnanda og gefum okkur að viðkomandi hafi 650.000 krónur í mánaðarlaun. 3,5% hækkun gerir 22.750 króna hækkun mánaðarlauna.
Hagfræðikenningar og prósentuleikfimi verða ekki að mat á borð verkafólks, það gera hinar raunverulegu launakrónur. Verkefnið er alls ekki óyfirstíganlegt. Verkamaður sem fær 300.000 í dagvinnulaun hefur aðeins meiri möguleika á að framfleyta sér en verkamaðurinn sem á að fá 227.000 í dagvinnulaun samkvæmt tillögum atvinnurekenda.
Töfratækið!
Ég er nokkuð sannfærður um að sæmilega vel reiknandi hagfræðingur gæti ekki komist að þeirri niðurstöðu að efnahagslífi þjóðarinnar yrði kollsteypt verði þessi leið farin. Heimsendaspár Samtaka atvinnulífsins eiga að blasa við ef verkafólk fær sanngjarnar launahækkanir. Hrun efnahagslífsins og heimsendaspá var hvergi nefnd þegar samið var við hálaunahópana í samfélaginu. Þá var talað um leiðréttingar. Það er „töfratækið” sem Samtök atvinnulífsins hafa notað fyrir hálaunastéttirnar en virðast samt enn vera að leita að þegar kemur að samningum við verkafólk.
Verkfallsheimild!
Hjá atvinnurekendum er bara ein leið fær, þið semjið á okkar forsendum eða það verður ekki samið. Þriðjudaginn 10. mars var réttlætiskennd samninganefndar SGS svo gróflega misboðið að ákveðið var að lýsa viðræður við atvinnurekendur árangurslausar og hefja undirbúning aðgerða.
Getum við sætta okkur við 7 – 8.000 króna hækkun mánaðarlauna eins og Samtök atvinnulífsins hafa boðið? Eða ætlum við að sækja sanngjarnan hluta af milljarðahagnaði margra íslenskra fyrirtækja? Ætlum við að standa saman um bætt kjör verkafólks og standa þannig með kröfunni um 300.000 króna lágmarkslaun innan 3ja ára? Ef svarið er já þá hvet ég ykkur til að taka þátt í kosningu um verkfallsheimild. Félagsmenn í Verk Vest hvattir til að íhuga stöðu vandlega og taka síðan þátt í atkvæðagreiðslu um heimild til verkfallsaðgerða.
Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verk Vest.