Translate to

Fréttir

Tvö ár án kjarasamnings - Trausti Jörundarson, formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar skrifar

Trausti Jörundarson, formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar Trausti Jörundarson, formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar

Þann 1. desember voru liðin tvö ár frá því að kjarasamningur sjómanna rann út og ekki sér fyrir endann á þessum viðræðum við SFS um nýjan samning. Það er alveg ljóst að það er SFS í hag að hafa þetta svona, óbreytt ástand er þeim mikið kappsmál eins og kemur í ljós í hvert einasta skipti sem samninganefndir hittast.

Viðleitni þeirra til að gera kjarasamning við sjómenn er engin, tala um að krafa okkar um tilgreinda séreign  muni að öllum líkindum leggja útgerðina á hliðina og muni margar hverjar einfaldlega fara á hausinn.  Ef það er þannig að þessi réttláta krafa okkar gangi frá þessum fyrirtækjum dauðum þá eru þessi fyrirtæki ekki rekstrarhæf og ekki við sjómenn að sakast hvað það varðar.

Frá árinu 2011 til 2021 hafa sjómenn unnið eftir gildandi kjarasamningi  frá 1. febrúar 2017 til 1. desember 2019, á tímabilinu frá 2011 til 2017 var enginn kjarasamningur í gildi og núna eru tvö ár frá því samningurinn rann út, þetta eitt og sér er einfaldlega með ólíkindum. Þetta sýnir það svart á hvítu hversu mikil virðing er borin fyrir þessum störfum hjá fyrirtækjum í sjávarútvegi. Þessi staða er einsdæmi á almennum vinnumarkaði og örugglega í vestrænum heimi þar sem ein starfsstétt er gjörsamlega hundsuð af viðsemjendum og í ofanálag þá tekur ríkið þátt í að rýra laun sjómanna með því að taka af þeim sjómannaafsláttinn. Samstaða ríkis og útvegsmanna er með ólíkindum hvað þessi mál varðar, enda fá stjórnmálaflokkar ógrynni af peningum frá þessum fyrirtækjum svo hægt sé að halda vel utan um hagsmuni þeirra.

Þegar sjómenn fóru að velta fyrir sér verði á uppsjávarfiski á árinu 2019 þá sendi ég tölvupóst á alla þingmenn í Norð-Austur kjördæmi og spurði þá hvort ekki væri kominn tími til að athuga  hvernig þessu væri háttað hér þar sem norsk og færeysk skip væru að fá allt að 130% hærra verð fyrir fiskinn en íslensku skipin þrátt fyrir að aflanum væri landað á sama stað. Það er skemmst frá því að segja að aðeins einn svaraði mér og hann var þá forseti Alþingis og mátti ekki hafa neina skoðun á þessu. Svona er þetta allt saman, ef útgerðamenn vilja eitthvað þá er því einfaldlega “reddað” en ef sjómenn vilja standa jafnt á við aðra launþega í landinu þá er það ekki hægt vegna stöðu fyrirtækja í sjávarútvegi og í ofanálag erum við skildir eftir þegar lög um lífeyrisréttindi eru samin af hinu háa Alþingi.

Krafa okkar er einföld og réttlát, sjómenn vilja geta unnið sína vinnu og vera með gildandi kjarasamning, vopnið sem við höfum er að boða til verkfalls en það er alltaf síðasti kostur.

Trausti Jörundarson

Formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar

Deila