Translate to

Fréttir

Undirbúningur kjarasamninga - er ríkisstjórninni treystandi ?

Nú er að fara í hönd mikill annatími hjá stéttarfélögum víðsvegar um landið vegna undirbúnings fyrir kjarasamninga. En þeir eru flestir lausir frá og með 30.nóvember næst komandi að undanskildum sjómönnum sem eru með lausa samninga frá 1.janúar 2011.  Félögin hafa leitað til félagsmanna um helstu áherslur og hvaða kröfur eigi að gera, á að leggja áherslu á lægst launin ? verður hægt að ná árangri í viðræðum við stjórnvöld ? ætla sjómenn að leggja áherslu á sjómannaafsláttinn ? osfrv.  Þetta verða ekki auðveldar viðræður og í mörg horn að líta þegar kemur að hvar við eigum helst að setja áherslupunktana okkar. En það sem verður að vera alveg á hreinu er ef við ætlum að ná árangri þá verðum við að standa saman, þannig og eingöngu þannig náum við markmiðum okkar um mannsæmandi laun á vinnumarkaði.

Á fundi miðstjórnar ASÍ þann 26.ágúst sl. kom fram að ríkisstjórnin hefði boðað aðila Stöðuleikasáttmálans á fund til að ræða aðkomu að nýrri samstarfsáætlun.  Þar kom fram af hálfu fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar að reynslan af Stöðugleikasáttmálanum og framgangi hans væri ekki með þeim hætti að hún gæfi tilefni til bjartsýni varðandi samstarf stjórnvalda og verkalýðshreyfingarinnar. 

Í reynd hefðu stjórnvöld ekki staðið við mikilvæga þætti sáttmálans og ekki hafi verið hægt að treysta þeim loforðum sem ríkisstjórnin gaf í tengslum við hann.  Í því sambandi var bent á aðgerðaleysið í atvinnumálum sem ASÍ hefur lengi gagnrýnt og svik varðandi lögbindingu framlaga til Starfsendurhæfingarsjóðs. Af þessum ástæðum hefði ASÍ sagt sig frá Stöðugleikasáttmálanum.

Þá lægi nú fyrir að ríkisstjórnin ætlar ekki að standa við loforð í skattamálum auk þess sem ekki á að verðbæta lífeyrisgreiðslur til elli- og örorkulífeyrisþega. Hefðu stjórnvöld raunverulegan áhuga á samstarfi væri réttast að þau byrjuðu á að efna það sem þegar hefði verið lofað.  Fram kom á miðstjórnarfundinum að lítill áhugi væri meðal félagsmanna aðildarfélaganna á nýjum Stöðugleikasáttmála eða "samstarfsáætlun" í ljósi framgöngu stjórnvalda.

Af þessu má sjá að róðurinn verður ekki auðveldur og þurfum við sem störfum í framlínu stéttarfélaganna að halda á ráðum og stuðningi félagsmanna til að við náum sameiginlega þeim árangri sem við viljum helst ná. Með samstöðuna að vopni verða okkur allir vegir færir eins og sagan hefur sýnt okkur. 
Deila