Translate to

Fréttir

Uppsagnir í vega og mannvirkjagerð

Nú um þessi mánaðarmót hafa fyrirtæki sem sérhæfa sig í vega- og mannvirkjagerð enn þurft að segja upp starfsfólki. Gera má ráð fyrir að þessar uppsagnir varði rúmlega 200 manns á landinu öllu. Þessir einstaklingar bætast nú við þá tæplega þá 17 þúsund einstaklinga sem eru í atvinnuleit á Íslandi í dag. Ef stjórnvöld í landinu ætla ekki að bregðast við ákalli um auknar framkæmdir má gera ráð fyrir atvinnuleysi festi sig í sessi til lengri tíma, hagvöxtur í landinu frestist og efnhagslægðin verði lengri og erfiðari. Stjórnvöld í landinu verða að átta sig á því að auknar framkvæmdir skila sér að miklu leiti aftur í ríkiskassann.
 

Þegar yfirlitskort vegagerðarinnar á www.vegagerdin.is vegna framkvæmda við vegagerð á landinu er skoðað má sjá að nánast allar framkvæmdir sem eru í gangi munu klárast á þessu ári eða í ársbyrjun 2011. Engar nýframkvæmdir er að sjá í spilunum þrátt fyrir að brýn nausyn sé til að hefja framkvæmdir svo hægt sé að halda hjólum atvinnulífsins gangandi. Alþýðusamband Íslands hefur lagt fram metnaðarfulla aðgerðaráætlun sem send var til stjórnvalda en lítil eða engin viðbrögð hafa orðið við því ákalli. Þá hafa stéttarfélög hringinn í kringum landið sent frá sér ályktanir og samþykktir þar sem ríkisstjórn og sveitastjórnir eru hvattar til taka höndum saman við að koma atvinnu, efnahags og félagsmálum í þann farveg að hér verði viðunandi hagvöxtur á nýjan leik.
 

Á þenslutímum eiga ríkis- og sveitastjórnir að halda að sér höndum, en þegar kreppir að þá verða þessir aðilar að koma að borðinu og setja aukna drift inn í atvinnulífið svo þar ríki ekki algjört frost. Við sjáum það öll í hendi okkar að aukin atvinna skapar auknar tekjur fyrir alla innviði þjóðarbúsins.  Ríkissjóður fær til baka aukna skatta frá fyrirtækjum og einstaklingum svo sem tekjuskatt, virðisaukaskatt, tryggingagjald, olíugjald og svona mætti áfram telja. Þá greiðir starfsfólk þessarar fyrirtækja ýmsa jaðarskatta fyrir utan aukið útsvar til sveitafélaga. Þá eru ótalin öll hliðar áhrif sem auknar framkvæmdir skila út í samfélagið. Innspíting fjármuna inn í atvinnulífið er það sem sárvantar við núverandi aðstæður.
 

Lykilatriðið í þessu öllu er því að sýna ákveðni og framsýni við ákvarðanartöku og það verður best gert með því að ráðast strax í framkvæmdir sem skila þjóðarbúinu aukinni hagsæld.  Með því að gera lítið annað en skera niður útgjaldaþætti í rekstri þá kemur að því að tekjuþættirnir verði nánast engir. Þá er ótalin sú staðreynd að fjölgun á atvinnuleysisskrá þýðir aukin útgjöld fyrir ríkissjóð í formi atvinnuleysisbóta. Það verða allir að taka þátt í að koma efnahags- og atvinnulífinu á réttan kjöl og það er ekki eftir neinu að bíða. Ekki mun standa á kröftum verkalýðshreyfingarinnar eins og aðgerðaráætlun Alþýðusambands Íslands staðfestir. Við ættum öll að hafa kjörorð 1.maí að leiðarljósi í því mikilvæga verkefni, því öll viljum við vinna.
Deila