Úrskurður kjararáðs svívirðileg mismunun gegn almennu launafólki, öldruðum og öryrkjum
Nýfallinn úrskurður kjararáðs um tugprósenta hækkun launa æðstu ráðamanna þjóðarinnar er sem blaut tuska í andlit almenns launafólks. Með úrskurði kjararáðs fá þingmenn um 368.000 króna hækkun mánaðalauna, sem svarar ríflega 100% meira í hækkun á mánuði en taxtalaunafólk fær allt árið. Rétt er að ítreka að almennt taxtalaunafólk fékk 15.000 króna hækkun mánaðarlauna í upphafi árs sem gera 180.000 krónur á ársgrundvelli, en sú hækkun var talin ógnun við stöðugleika á vinnumarkaði.
Með þessum hætti er enn aukið á launaskrið hálaunahópa og almennu launfólki mismunað með grófum hætti. Verkalýðsfélag Vestfirðinga skorar á Alþingimenn að láta úrskurð kjararáðs ganga til baka, að öðrum kosti séu allar hugmyndir um samkomulag sem stuðli að stöðugleika á almennum vinnumarkaði úr sögunni. Verkalýðsfélag Vestfirðinga gerir stjórnvöld ábyrg fyrir þeim óróleika og reiði á vinnumarkaði sem úrskurður kjararáðs kann að valda.