Útför Ingbjargar R. Guðmundsdóttur fer fram í dag
Ingibjörg starfaði lengst af hjá Flugleiðum og fyrir verkalýðshreyfinguna í rúmlega 30 ár. Hún sat í stjórn VR í alls 14 ár frá árinu 1975, þá aðeins 26 ára gömul. Hún var kosin formaður LÍV á þingi sambandsins árið 1989 og er eina konan sem gegnt hefur embætti formanns landssambands innan ASÍ. Ingibjörg var sæmd gullmerki LÍV og gullmerki VR. Ingibjörg var kona sátta og lausna og leiddi hún alla kjarasamninga LÍV frá þjóðarsáttasamningunum árið 1990. Hún barðist ötullega fyrir réttindum launafólks á vinnumarkaði og voru jafnréttismálin henni ætíð ofarlega í huga. Ingibjörg leiddi landssambandið í gegnum miklar breytingar og gegndi trúnaðarstörfum fyrir það árum saman.
Hún starfaði hjá VR frá árinu 2002 samhliða formennsku LÍV og bar ábyrgð á erlendum samskiptum ásamt samskiptum við önnur sambönd og félög innan ASÍ. Ingibjörg tók þátt í þingum Alþýðusambandsins frá því að hún tók sæti í stjórn VR. Hún sat lengi í sambandsstjórn ASÍ og var kjörin í miðstjórn og sem varaforseti árið 1992 og gegndi því embætti samtals í 14 ár en gaf ekki kost á sér aftur nú í haust vegna veikinda. Þá gegndi Ingibjörg fjölda trúnaðarstarfa í nefndum og ráðum fyrir hönd Alþýðusambandsins. Ingibjörg sat í stjórn Verzlunarskóla Íslands í áratugi og var einnig formaður sóknarnefndar Neskirkju. Útför Ingibjargar verður gerð frá Neskirkju kl. 13:00 í dag og sendir stjórn félagsins aðastandendum innilegar samúðarkveðjur.