Translate to

Fréttir

Útgerðarmenn hafna tilboði sjómanna - heimild til vinnustöðvunar virkjuð

Þann 11. maí 2011 lögðu Landssamband íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) og Verkalýðsfélags Vestfirðinga (Verk Vest) fram kröfur vegna endurnýjunar á kjarasamingi sjómanna í Verk Vest sem rann út þann 1. janúar 2011.

Útgerðarmenn lýstu viðræður um framlagðar kröfur árangurslausar og þann 22. maí 2012 og vísuðu kjaradeilunni til Ríkissáttasemjara. Þann 4. desember 2015 mat samninganefnd Verk Vest það svo að viðræður hefðu reynst árangurslausar, þrátt fyrir milligöngu sáttasemjara og var viðræðum slitið á fundi deiluaðila hjá sáttasemjara.

Þann 29. júní var undirritaður endurnýjaður kjarasamningur milli útgerðarmanna ( SFS áður LÍÚ ) og Verk Vest. Sjómenn í Verk Vest felldu endurnýjaðan kjarasamning í póstatkvæðagreiðlsu þann 15. ágúst 2016.

Viðræður við SFS hafa ekki borið árangur þrátt fyrir ítrekaða sáttafundi undir stjórn Ríkissáttasemjara. Á fundi hjá sáttasemjara þann 6. september lögðu fulltrúar sjómanna fram úrslitatilboð til lausnar deilunni til að forða átökum. Útgerðarmenn höfnuðu tilboði sjómanna til lausnar deilunni og bera því sjálfir ábyrgð á því hvernig komið er.  

Að fenginni þessari niðurstöðu hefur samningaráð Verkalýðsfélags Vestfirðinga  ákveðið að efna til allsherjaratkvæðagreiðslu um vinnustöðvun hjá öllum þeim sem starfa samkvæmt kjarasamingi sjómanna á félagssvæði Verkalýðsfélags Vestfirðinga samkvæmt grein 1.35 í kjarasamingi sjómanna í Verkalýðsfélagi Vestfirðinga. 

Fulltrúar Sjómannasambands Íslands, Sjómannafélags Íslands, Verk- Vest og VM-Félags vélstjóra og málmtæknimanna munu hafa samvinnu og samræma dagsetningar um atkvæðagreiðslu og hvenær verkfall skuli hefjast. Stefnt er á að aðgerðir gætu hafist í byrjun nóvember.

Verk Vest mun viðhafa rafræna atkvæðagreiðslu þar sem hver og einn skráir sig inn með íslykli. Nánari upplýsingar um rafræna atkvæðagreiðslu munu birtast á vef félagsins innan skamms.

F.h. samninganefndar Verkalýðsfélags Vestfirðinga

Samningaráð Verkalýðsfélags Vestfirðinga 

Deila