Varað við ESB inngöngu - tökum fyrst til heima!
Ágæt þátttaka var í 1. maí kröfugöngu á Ísafirði þrátt fyrir hryssingslegt veður. Hátíðarhöldin þóttu takast vel og var gríðarlegt fjölmenni í kaffisamsæti að dagskrá lokinni. En hefð er orðin fyrir því að 1. maí nefnd stéttarfélaganna bjóði í kaffi á þessum baráttudegi verkalýðsins. Formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga flutti hátíðarræðu dagsins, en í henni var tekið á málum eins og stöðu atvinnulífs á Vestfjörðum, gjaldfellingu kjarasamninga, verðbólgubálinu og inngöngu í Íslendinga í ESB. En við þeim gjörningi varar formaðurinn sterklega við svo vitnað sé í brot úr ræðu formannsins.
..." Það er óráð að fara á taugum í þeim efnahagsumbrotum sem nú dynja á landsmönnum og líta á viðræður um inngöngu í Evrópubandalagið sem einhverja töfralausn til björgunar heimatilbúins efnahagsvanda.
Verstu afleiðingarnar fyrir þjóðina væru að okkar verðmætu auðlindir yrðu afhentar til ESB á silfurfati. Með þeim gjörningi hefðum við ekkert um nýtingu auðlinda okkar að segja í framtíðinni."...
Þetta virðist vera sá tónn sem víðar er gefin innan verkalýðshreyfingarinnar, en ræðuna í heild sinni má sjá undir liðnum pistlar hér á síðunni. Formanni 1.maí nefndar stéttarfélaganna Kára Þ. Jóhannssyni var hugleikið í máli sínu hvar þingmenn okkar Vestfirðinga væru staddir, því ekki einn einasti þeirra sást taka þátt í hátíðarhöldunum á Ísafirði þetta skiptið. Við getum bara gert ráð fyrir að þeir hafi verið að vinna að lausn vandamála umbjóðenda sinna, sem eru ærin þessa dagana.