Veggspjald Verk-Vest á fimm tungumálum
Á félagssvæði Verkalýðsfélags Vestfirðinga er mjög fjölþjóðlegt umhverfi hvað félagsmenn varðar. Því miður er ekki eingöngu hægt að notast við móðurmál okkar íslenskuna heldur verður líka að vera hægt að koma upplýsingum á framfæri á öðrum tungumálum. Því fór Verk-Vest af stað með það að leiðarljósi og hefur látið gera veggspjald með ýmsum gagnlegum upplýsingum um réttindi launþega á fjórum tungumálum auk íslensku.
Segja má að sumir vinnustaðir á okkar félagssvæði séu eins og fjölþjóðlegt samfélag og var hugsunin að vekja félagsmenn frá ólíkum menningarheimum í umræðu um réttindamál sín á vinnumarkaði. Ætlunin er að veggspjaldið verði sett upp bæði á vinnustöðum og stofnunum, svo sem Svæðisvinnumiðlun, Fjölmenningarsetri og víðar. Vonandi verður veggspjaldið til að minna bæði starfsmenn og stjórnendur á réttindi og skyldur sem stundum vilja gleymast í daglegu amstri.
Upplýsingarnar eru á íslensku, ensku, pólsku, tailensku og máli Filippseyinga, tagalog. M.a. er þar fjallað um veikindarétt, uppsagnarfrest, trúnaðarmenn, sjúkrasjóð félagsins, fræðslusjóð og minnt er á mörg fleiri atriði sem gott er að hafa í huga. Guðmundur Rúnar Árnason og fyrirtækið Hlynur/grafisk hönnun önnuðust uppsetningu. Túlkar frá Alþjóðahúsi sáu um að snúa textanum og tveir félagsmenn okkar, Pálína Sinthu Björnsson og Janina Kryszewska lásu prófarkir á tailensku og pólsku.