Vel heppnuð Flateyjarferð
Sunnudaginn 15. júní fór 68 manna hópur félaga í Verk-Vest og maka í ævintýraferð í Flatey á Breiðafirði.
Farið var með Baldri frá Brjánslæk, en þangað höfðu ferðalangar safnast saman af félagssvæðinu, frá Patreksfirði til Súðavíkur með rútu eða einkabílum. Um borð í Baldri var framreiddur morgunmatur, brauð og kröftug sjávarréttasúpa.
Í Flatey lengdist dvölin um 2 klukkutíma framyfir áætlun. Þannig gafst góður tími til að ganga um eyna og skoða sig um. Í Flatey var allt frá miðöldum höfuðból verslunar og menningar. Skip sigldu þangað beint frá útlöndum með varning og fluttu út afurðir landans. Þar var klaustur lengi og þar var hin fræga Flateyjarbók skrifuð. Í eynni var fram á 20. öld öflugt atvinnulíf og töluverð byggð.
Flest hús í Flatey hafa verið gerð upp í upprunalegri mynd og haldið vel við, svo auðvelt er að ímynda sér hvernig umhorfs hefur verið í eynni á ýmsum tímum. Læknishúsið, hótelið, verslunarhús, Pakkhúsið, Bókhlaðan og kirkjan eru allt áhugaverðar byggingar.
Fuglalíf er fjölbreytt og þeir eru svo spakir að nær þessum kviku dýrum er sjaldgæft að komast.
Úr Flatey var svo haldið með tvíbytnunni Særúnu til skelfiskveiða og aflinn étinn á staðnum beint úr skelinni, sem forréttur að dýrindis máltíð sem borin var fram í bátnum. Þar var framreitt hlaðborð sem smakkaðist afar vel og voru gerð góð skil, enda var hráefnið að mestu úr Breiðafirðinum.
Ferðinni lauk svo kl. 19 á Brjánslæk, en þaðan héldu ferðafélagarnir hver til síns heima, sælir og glaðir eftir vel heppnaða ferð.
Myndir: Eygló Jónsdóttir.