Translate to

Fréttir

Vel heppnuð fræðsluferð í Reykjanes

Júlíus messar yfir mannskapnum Júlíus messar yfir mannskapnum
hópastarf í fullum gangi hópastarf í fullum gangi
Það var líka tími fyrir létt spjall Það var líka tími fyrir létt spjall

Eins og kom fram í auglýsingu hér á vefnum þá stóð Verkalýðsfélag Vestfirðinga fyrir fræðsluferð inn í Reykjanes við Ísafjarðardjúp dagana 16 - 17.október. En með tilkomu nýrrar brúar yfir Mjóafjörð er Reykjanesið orðinn frábær valmöguleiki fyrir hópa og félagasamtök sem vilja njóta næðis og friðar í fallegri náttúru. Á tímabili leit þó út fyrir að fresta þyrfti ferðinni eina ferðina enn og nú vegna veikinda bæði hjá félagsmönnum og leiðbeinendum. 

Þeir Júlíus Valdimarsson hjá Lausnum og Guðmundur Rúnar Árnason hjá Viðhorfum héldu utan um fræsluþáttinn, en þess má geta að Guðmundur Rúnar var forfallaður vegna veikinda.  Fyrirtækið Lausnir hafði áður unnið viðhorfskönnun hjá félagsmönnum þar sem félagsmaðurinn var settur í einskonar ráðgjafahlutverk um það sem betur mætti fara í starfi félagsins. Síðan var efni  könnunarinnar notaður sem grunnur að þeirri vinnu sem þátttakendur þurftu að inna af hendi í hópastarfi báða dagana.  Þátttakendur fræddust um grunnhugsun og uppbyggingu verkalýðshreyfingarinnar, fyrir hvað hún stendur og hverju hún hefur áorkað með margra áratuga þrotlausri baráttu fyrir bættari kjörum landsmanna. 

Þá var einnig hugað að framtíðinn og hvert bæri að stefna til að virkja félagsmanninn betur og þá sérstaklega unga fólkið á vinnumarkaði. Námskeiðið tókst í alla staði mjög vel og var það mál þeirra sem tóku þátt að þetta yrði að gera að árlegum viðburði.  Aðastaðan til námskeiðahalds í Reykjanesinu er ágæt og var vel hugsað um þátttakendur í öllum aðbúnaði. Ekki spillir heldur að  hafa sundlaug til að skella sér í þegar amstri dagsins var lokið. 

Deila