Translate to

Fréttir

Vel heppnuð vika símenntunar

Vinnslan í Odda á Patreksfirði gengur vel Vinnslan í Odda á Patreksfirði gengur vel
Agnieszka afgreiðir í Fjölvali á Patreksfirði Agnieszka afgreiðir í Fjölvali á Patreksfirði
Finnskur saftpottur Þorsteins er sannkallað galdratæki Finnskur saftpottur Þorsteins er sannkallað galdratæki
Mariola og Elzbieta sungu í Sjóræningjahúsinu Mariola og Elzbieta sungu í Sjóræningjahúsinu
Starfsfólk Fræðslumiðstöðvarinnar: Kristín, María og Smári Starfsfólk Fræðslumiðstöðvarinnar: Kristín, María og Smári
Leikskólinn á Hólmavík heimsóttur: Brynja, Smári og Kristín Leikskólinn á Hólmavík heimsóttur: Brynja, Smári og Kristín
Saltfiskvinnsla í fullum gangi hjá Drangi á Drangsnesi Saltfiskvinnsla í fullum gangi hjá Drangi á Drangsnesi
Hjá Hólmadrangi á Hólmavík: Gústa, Fjóla og Úlrik í pásu Hjá Hólmadrangi á Hólmavík: Gústa, Fjóla og Úlrik í pásu
Fjöldi manns fékk tilsögn í útieldun við Galdrasafnið á Hólmavík Fjöldi manns fékk tilsögn í útieldun við Galdrasafnið á Hólmavík
Stefán lék við hvern sinn fingur á Galdraloftinu Stefán lék við hvern sinn fingur á Galdraloftinu

Í gær lauk viku símenntunar 2008.

Markmið viku símenntunar er að auka símenntun í atvinnulífinu og hvetja fólk til að leita sér þekkingar alla ævi. Í viku símenntunar var að þessu sinni lögð áhersla á fræðslu í fyrirtækjum og sem fyrr að ná til þeirra sem hafa litla formlega menntun. Miðvikudagurinn 24. september er árlegur símenntunardagur í fyrirtækjum og stofnunum og voru þessir aðilar sérstaklega hvattir til að nota daginn til að fræða starfsmenn um kosti símenntunar og möguleika til náms og námsstyrkja.

Á Vestfjörðum sá Fræðslumiðstöð Vestfjarða um dagskrána í viku símenntunar. Eins og fyrri ár var farið um Vestfirði og fólki kynnt starfsemi Fræðslumiðstöðvarinnar, þeir kostir sem bjóðast í fullorðinsfræðslu og námsstyrkir stéttarfélaganna. Þátttakendur voru frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Háskólasetri Vestfjarða, Verkalýðsfélagi Vestfirðinga og Vinnumálastofnun á Vestfjörðum, auk Þorsteins Þráinssonar matreiðslumanns. Fyrirtæki og stofnanir voru heimsótt að deginum, en á kvöldin var opnuð "menntakista" þar sem gestir fengu tilsögn í notkun internetsins og þeir sem aðild áttu að ferðinni kynntu starfsemi sína á sviði símenntunar. Þá sýndi Þorsteinn Þráinsson matreiðslu yfir opnum eldi og töfraði fram á skammri stund allskyns hnossgæti. Heimamenn á hverjum stað sáu svo um söng og hljóðfæraslátt.

Hin eiginlega dagskrá hófst á Þingeyri á mánudagskvöld. Þar eldaði Þorsteinn m.a. reyksoðinn lunda og hrefnu, sem gerðu mikla lukku. Þórhallur Arason sá um tónlistaratriði og flutti mestan part frumsamin lög og texta, við góðar undirtektir.

Á þriðjudag var farið suður á bóginn til Patreksfjarðar. Þann dag voru fyrirtæki á Bíldudal og Tálknafirði heimsótt og skoðuð aðstaða Fræðslumiðstöðvarinnar á Patreksfirði, en María Ragnarsdóttir var í vor ráðin starfsmaður Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða á svæðinu og er einmitt þessa dagana að koma á fót "landnemaskóla" með þátttakendum á Patreksfirði og Tálknafirði.
Um kvöldið var menntakistan opnuð í Sjóræningjahúsinu. Þar sá Þorsteinn um tilsögn í matreiðslu og systurnar Mariola og Elzbieta Kowalczyk sungu af alkunnri snilld. Fyrri part miðvikudags voru fyrirtæki og stofnanir á Patreksfirði heimsótt og síðan haldið á Strandir. Heimsókn á Reykhóla var frestað að sinni.

Á Ströndum voru heimsótt fyrirtæki og stofnanir á Drangsnesi og Hólmavík á fimmtudag og menntakistan opnuð í Galdrasafninu á Hólmavík á fimmtudagskvöld. Eins og vænta mátti svikust Strandamenn ekki um að mæta og líklega hafa um 40 manns skoðað í menntakistuna þetta kvöld. Sem fyrr sýndi Þorsteinn snilldartakta við eldinn og Stefán S. Jónsson spilaði og söng og var í miklu stuði.

Þessi magnaða þátttaka Strandamanna var skemmtilegur lokaþáttur í dagskrá viku símenntunar í ár. Strandamenn stunda símenntun af miklu kappi og Kristín S. Einarsdóttir, sem hefur undanfarin ár verið tengiliður Fræðslumiðstöðvarinnar á Ströndum og var í vor ráðin í fast starf á svæðinu hjá miðstöðinni, á þar vafalaust mikinn hlut að máli.

Tímaskortur gerði það að verkum að færri stofnanir og fyrirtæki voru heimsótt en til stóð í upphafi, en í heild má fullyrða að vika símenntunar hafi heppnast ljómandi vel í ár, enda mikill metnaður lagður í að gera sem best.

Deila