Vel heppnuðu dyravarðanámskeiði lokið
Lögreglustjórinn á Vestfjörðum í samstarfi við Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Tryggingamiðstöðina og slökkvilið Ísafjarðarbæjar stóðu fyrir dyravarðanámskeiði dagana 11 - 14.janúar sl. Samkvæmt nýjum reglum þurfa dyraverðir að ljúka sambærilegu námskeiði til að meiga starfa sem slíkir. Megin áhersla var lögð á að hafa námskeiðið sem fjölbreytilegast og blanda saman verklegu og bóklegu. Námskeiðinu var vel tekið af veitingahúsaeigendum á norðanverðum Vestfjörðum og tóku 15 dyraverðir og eigendur veitingastaða þátt.
Í bóklega hluta námskeiðsins var farið yfir samskipti dyravarða og lögreglu, hlutverk dyravarða og ábyrgð. Þá var einnig fíkniefnafræðsla og farið yfir reglur um aðgengi unglinga að skemmtistöðum. Þá var tekið á réttindamálum dyravarða, bæði það sem snýr að tryggingum í starfi og réttindum og skyldum á vinnumarkaði. Sömuleiðis var farið yfir reglugerðir um áfengislög, lögreglusamþykkt og leifisveitingar. Í verklega hlutanum var farið í slysahjálp, brunavarnir og handtökur þ.e. hvernig skuli brugðist við átökum. Ekki var annað að sjá og heyra en þátttakendur væru mjög ánægðir með námskeiðið í heild sinni og þá hve fjölbreytt það var.