Verðbólga á ársgrundvelli mælist 2,1%
Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,58% milli mánaða og mældist 428,3 stig samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar. Verðbólga á ársgrundvelli mælist því 2,1% og hækkar lítillega milli mánaða. Lækkunin frá desember skýrist fyrst og fremst af árstíðarbundnum þáttum en vetrarútsölur hafa gjarnan áhrif á mælinguna í byrjun árs.
Þannig lækkaði verð á fötum og skóm um 13% (-0,57% vísitöluáhrif), húsgögn og heimilisbúnaður um 9,3% (-0,14%) og bensín um 3,3% (-0,11%).
Á hinn bóginn hækkar kostnaður vegna húsnæðis, hita og rafmagns um 0,8% (0,22%) og kostnaður við búsetu um 0,8% (0,13%). Það er því fyrst og fremst hækkun á húsnæði sem drífur verðbólguna um þessar mundir og mælist verðbólga án húsnæðis einungis 0,6%.
Sjá nánar á heimasíðu ASÍ