Translate to

Fréttir

Verðbólgan 17,1% í nóvember - frétt af vef ASÍ

Verðbólga mældist 17,1% í nóvember og hefur verðlag hækkaði um 1,74% frá því í októbermánuði samkvæmt nýjum tölum sem Hagstofa Íslands birti í morgun um vísitölu neysluverðs.

Annan mánuðinn í röð eru það hækkanir á mat- og drykkjarvörum sem hafa mest áhrif til hækkunar á vísitölunni. Mat- og drykkjarvara hækka um 3,6% frá fyrra mánuði og hafa á síðustu 12 mánuðum hækkað um tæp 30%. Þar af hafa innfluttar mat- og drykkjarvörur hækkað um rúm 54% frá sama tíma í fyrra, búvörur um tæp 21%, grænmeti um tæp 37% og aðrar innlendar mat- og drykkjarvörur um tæp 25%.

Þá hækkar verð á áfengi og tóbaki um 6,5% á milli mánaða og verð á fötum og skóm um 3% en á síðustu 12 mánuðum hefur verð á fötum og skóm hækkað um tæp 19%. Húsgögn, heimlistæki og húsbúnaður hækka um 3,4% frá fyrra mánuði og sjónvörp, dvd-spilarar og tölvur um 6,9%. Einnig hækkar efni til viðhalds á húsnæði um 7% frá því í október en það hefur á síðastliðnu ári hækkað um 35%. Þá hækkaði verð á nýjum bílum um 1,1% frá því í síðasta mánuði.

Sé þróun verðlags síðastliðið ár skoðuð má sjá að innfluttar vörur hafa hækkað um 26% frá því á sama tíma í fyrra og innlendar vörur um tæplega 22%. Þá hefur dagvara, sem eru allar almennar rekstarvörur til heimilisins, hækkað um tæpan þriðjung á einu ári.

Deila