Translate to

Fréttir

Verðbólgan náði nýjum hæðum í október

Verðbólgan æðir áfram Verðbólgan æðir áfram

Verðbólga mældist 15,9% í október og hefur verðlag hækkað um 2,2% frá því í septembermánuði. Þetta er mesta verðbólga sem mælst hefur hér á landi síðan vorið 1990. Mest áhrif til hækkunar á verðlagi nú hefur hækkun á mat og drykkjarvörum um 4,3% á milli mánaða. Þar af hækkar verð á innfluttum mat- og drykkjarvörum um rúm 8%, innlendum vörum öðrum en grænmeti og búvörum um 4%, grænmeti um tæp 9% og búvörur um 1,7%. Á síðustu 12 mánuðum hefur verð á mat- og drykkjarvörum hækkað um 24,5%.

Þá hækkar verð á fötum og skóm um 4,9% frá því í septembermánuði og þar af hækkar verð á barnafötum mest eða um tæp 14%. Verð á ýmsum öðrum innfluttum vörum hækkar mikið á milli mánaða. Má þar nefna húsgögn, heimilistæki og ýmsan húsbúnað sem hækka um 7,1%, varahluti og hjólbarða sem hækka um 19,6%, flugfargjöld til útlanda um 18,7% og verð á sjónvörpum, dvd-spilurum, tölvum o.fl. um 10,6%.

Af öðrum liðum vístiölunnar sem hækka á milli mánaða má nefna að hitakostnaður hækkar um 6,6% sem rekja má til hækkunar á gjaldskrá Orkuveitu Reykjavíkur fyrir heitt vatn.

Til lækkunar á vísitölunni nú kemur verðlækkun á bensíni og olíum sem lækka um 3,4% frá því í september. Þá lækkar kostnaður vegna eigin húsnæðis um 1,3% á milli mánaða sem rekja má að mestu til lækkunar á markaðsverði húsnæðis.
Alþýðusambandið hefur ítrekað á síðustu mánuðum bent á að við núverandi aðstæður er nauðsynlegt að opinberir aðilar og fyrirtæki á þeirra vegum gangi á undan með góðu fordæmi og hækki ekki gjaldskrár sínar. Slíkt er þó enn raunin. Mikil óvissa í gengismálum um þessar mundir gerir alla verðlagningu á innfluttum vörum erfiða og staðfestir enn nauðsyn þess að koma gjaldeyrisviðskiptum í eðlilegt horf. Það er brýnna nú en nokkru sinni að allir, bæði fyrirtæki og opinberir aðilar, leggist á árar og haldi aftur af verðhækkunum á vörum sínum og þjónustu til þess að koma í veg fyrir frekari hækkun verðlags á næstu mánuðum.

Tekið af vef ASÍ.

Deila