Verðbólgan nær nýjum hæðum - af vef ASÍ
Verðbólga mældist 13,6% í júlí og hækkaði verðlag um 0,94% frá því í síðasta mánuði samkvæmt nýrri mælingu Hagstofu Íslands á vísitölu neysluverðs. Vístialan hækkar mikið á milli mánaða þrátt fyrir að sumarútsölur séu nú víða í verslunum sem hefur áhrif til lækkunar á vísitölunni.
Mest áhrif til hækkunar á vísitölunni nú hefur hækkun á verði nýrra bíla, sem hækkaði um 5,3% á milli mánaða. Verð á húsgögunum og húsbúnaði hækkaði einnig mikið á milli mánaða eða um 6,4%.
Verð á mat- og drykkjarvörum hækkaði um 2,2% frá því í júní. Þar af hækkaði verð á grænmeti um tæplega 8% á milli mánaða, verð á innfluttum matvörum um ríflega 3% og verð á innlendum matvörum öðrum en búvörum og grænmeti um tæplega 3%.
Verð á bensíni og olíu heldur áfram að hækka líkt og undanfarna mánuði og hækkaði um 2% frá því í júní. Bensínverð hefur frá því á sama tíma í fyrra hækkað um ríflega 43%.
Húsnæðisliður vísitölunnar hækkaði um 1,2% á milli mánaða sem skýrist af hækkun á húsaleigu um rúm 3% og hækkun á kostnaði vegna eigin húsnæðis hækkaði um 1,1% frá því í júní. Hækkun á eigin húsnæði skýrist af hækkun á markaðsverði húsnæðis á milli mánaða og hækkun raunvaxta. Þá hækkar verð á rafmagni og hita um tæplega 2% frá því í júní og kostaður vegna viðhalds og viðgerða heldur áfram að hækka og hækkar nú um 0,8% frá fyrra mánuði.
Mest áhrif til lækkunar á vísitölunni hafa verðlækkanir á fötum og skóm vegna sumarútsala en þessar vörur lækka í verði um 11,6% á milli mánaða.