Verðbólguhraðinn ógnvænlegur.
Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands þá mælist verðbólga í aprílmánuði 11,8%. Þesskonar verðbólguhraði hefur ekki mælst frá því í júlímælingu 1988. Í þessu samhengi er ekki hægt annað en tala um algjöra brotlendingu hvað verðbólgumarkmið varðar.
Í mælingunni vega hækkanir á nauðsynjum eins og mat og drykk þyngst eða um 14,6% á einu ári. Einnig hafa hækkanir á rekstrarkostnaði bifreiða komið illa við pyngju launþega, þar spila hækkanir á eldsneyti lang stærstu rulluna.
Áfram horfa launþegar upp á að nýumsamdar kjarabætur gjaldfalla með hverjum deginum sem líður. Við vandanum verður að bregðast og það strax, án þess að launþegar taki á sig skellinn eins og jafnan hefur verið raunin.