Verðkönnun ASÍ: Neytendur hvattir til að vera á verði
Vörukarfa ASÍ hækkaði mest í Bónus, um 2,9%, á milli verðmælinga verðlagseftirlitsins í annarri og fjórðu viku septembermánaðar ( 37. og 39. viku). Verð körfunnar hækkaði um 1,4% í Hagkaupum og 1,2% í Nóatúni á sama timabili.
Mest lækkaði verð körfunnar í Samkaupum-Strax, um 4,4%, á milli verðmælinga og karfan lækkaði sömuleiðis í Nettó um 1,8% og í Kaskó um 0,9% á tímabilinu.
Mikil hreyfing er á verði í matvöruverslunum um þessar mundir sem getur gert neytendum erfitt um vik að átta sig á verðlagi og gera verðsamanburð. Í ljósi mikillar lækkunar á gengi íslensku krónunnar eru teikn á lofti um áframhaldandi hækkanir á mat- og drykkjarvörum og eru neytendur því hvattir til þess að vera sérstaklega vel á verði og fylgjast með verðlagningu í verslunum. Í ljósi fjölda ábendinga sem borist hafa verðlagseftirlitinu er við þessar aðstæður einnig ástæða til að árétta að neytendur fylgist vel með því að samræmi sé á milli þess verðs sem gefið er upp á verðmerkingu inni í verslunum og því sem greitt er fyrir vöruna við kassa.
Nánari upplýsingar á vef ASÍ.